föstudagur, 2. júlí 2004

Stóra majónesdósarmálið!

Majonesdós risin í óleyfi við Suðurlandsveg
Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi segir að ekki verði annað séð en að majonesdós nokkur mikil við Suðurlandsveg rétt vestan Þjórsár sé risin þar í óleyfi viðkomandi yfirvalda og um brot kunni að vera á náttúruverndarlögum.
Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni hefur hann látið fara fram könnun hjá viðeigandi yfirvöldum og niðurstaða hennar er sú, að engin leyfi hafa verið veitt.

Ólafur Helgi segir að ekki hafi verið leitað til sýslumanns á Selfossi um leyfi þrátt fyrir að svo hafi mátt skilja í fréttum sjónvarps klukkan 22 í gærkvöldi.

Hann segist vænta þess að „ónákvæmum fréttaflutningi af majonesdósinni linni þar til eigendur hafa leitt í ljós hverra leyfa þeir hafa aflað sér til þessar staðsetningar.“ Málið er áfram til athugunar hjá sýslumannsembættinu.


Þegar ég sá þessa dollu fannst mér ég vera kominn til Bandaríkjanna, þó að ég hafi aldrei komið þangað hefur maður séð myndir þaðan af þjóðvegum þar sem auglýsingar eru oft eitthvað á þessa leið, hlutur sem allir þekkja í ákveðinn stærð tekinn og margfaldaður hlutfallslega upp þannig að hann ögri áhorfandanum. Erum við alltaf að líkjast Bandaríkjamönnum meir og meir? Mér finnst það og vil ég nefna til dæmis nýlegan dóm í Hæstarétti í Stóra málverkafölsunarmálinu, þar voru í fyrsta skipti í íslenskri réttarfarssögu(að mér skilst) ekki tekin gögn til greina sem sönnuðu sekt manna því að öflun þeirra var ekki með löglegum hætti. Hvað hefur maður ekki oft séð þetta í bíómyndunum? Morðvopnið fannst í skotti grunaðs morðingja en það gleymdist að fá leitarheimild og því má ekki nota sönnunargagnið fyrir rétti. Eða eitthvað álíka. Þetta er sjálfsagt erfitt að eiga við allt saman. Hvað finnst þér?


Þess má geta að þetta majónesmál kemur mér ekkert við þó að nafnið mitt standi stórum stöfum á dollunni.

Engin ummæli: