þriðjudagur, 30. nóvember 2004

Afturhaldskommatittsflokkur...

...eða afturhaldshommatittsflokkur eins og virðulegur fréttamaðurinn á Rás 2 sagði í fjögurfréttum í gær...mismælti sig greyið. Alltaf fjör á Alþingi þegar Davíð verður pirraður. Öllu fjörugra en til dæmis fyrirspurnin sem Björgvin G. Sigurðsson kom með á Alþingi til iðnaðarráðherra þann 7. okt síðastliðinn, endilega kíkið á hana með því að smellla hér.


Annars er nú meira vælið í Arsenal-mönnum í dag, tek hér eitt dæmi;

Henry: Injuries to blame
Arsenal striker Thierry Henry believes a catalogue of injury problems have contributed to the Gunners' slump in form of late.

Einmitt vinur, injuries my ass! Ekki tala um injuries við okkur Liverpool-menn. Ætli þeir þurfi bara ekki eitt gott faðmlag frá mömmu þessir kjóar.......hehehe.


Var í síðasta tímanum í morgun í Almennri lögfræði. Nú er upplestrarfríið formlega byrjað í því fagi en þarf samt að fara í einn tíma enn í Réttarsögu á föstudaginn. Nú hefst lesturinn ofurlegi.

Talandi um lestur. Keypti bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar um daginn, "Um fordæmi og valdmörk dómstóla", sem hann gaf út í fyrra. Þessi bók er snilld og einmitt bókin sem ég þurfti á að halda á þessu stigi í náminu. Hann dregur hlutina saman á hnitmiðaðan og "einfaldan" hátt, allavega miðað við fyrirrennara hans í lagabókaskrifum. Þeir sem hafa lesið eitthvað undanfarið hér á síðunni hafa eflaust tekið eftir því að ég hef mikið vælt um langlokuskrif og þvælt orðalag í þessum fræðibókum í lögfræði. Í innganginum í bók Jón Steinars fékk ég eins konar "backup" á þessari skoðun minni. Hér er tilvitnun í innganginn;
"Mér finnst þeir sem skrifa um lögfræði hafa nú fremur en áður tilhneigingu til að skrifa langt og stundum fremur óskýrt mál þar sem meginefni hverfur í málæði um einskis verða hluti og aragrúa tilvitnana í aðra höfunda sem sagt hafa það sama á undan. Það er eins og menn telji að fræði þeirra verði metin af lengdinni og umfangi umbúðanna."
Nákvæmlega, takk fyrir þetta.

mánudagur, 29. nóvember 2004

Ekki orgasmic sensation!

USSSS!!! SUSSSSS!! OG SVEIATTAN!!!


Þetta var nú ljóta umferðin, allavega hvað mig varðar. Bræðurnir 3(Kiddi, Guðni og Höddi) riðu feitum hesti frá umferðinni og spurning hvort að þarna hafi verið ólöglegt samráð á ferðinni...hmmmm?

En eins og sjá má þá voru Góðbjór Albions hlutskarpastir í þetta sinn og hafa þeir með frammistöðu sinni náð toppsætinu af Wengers understudy. Hudz F.C. stukku fram úr Winchtestertonfieldville Wallabees sem halda áfram að hríðfalla niður töfluna. Athyglisvert er að sjá tvö lið í neðri hlutanum sem eru að sýna klærnar; Mendozas Fat Dogs og Gúrkuna, þeir eru greinilega búnir að taka þumalinn úr rassgatinu loksins...hehehe.

Ég held 4. sætinu með naumindum eftir vægast sagt lélega frammistöðu. Ég fór ekki alveg hefðbundna/"örugga" leið þessa umferðina og því bjóst ég við sviptingum en ég var að vona að þær yrðu á jákvæðan hátt. Win some, lose some. Ég hef enga afsökun, ég hreinlega skeit á mig í þetta sinn.

sunnudagur, 28. nóvember 2004

Orgasmic sensation!!Já það getur vel verið að hann líti út eins og bóndastrákur undan Fjöllunum en mikið djöfull elska ég hann!!!! Markið var grííííðarlega mikilvægt, sérstaklega móralslega séð þó svo að stigin séu að sjálfsögðu bullandi velkomin líka. Jájájájájájájá!!!!!

Ég viðurkenni að ég var vel smeykur eftir að Arsenal jöfnuðu en mínir menn börðust eins og garðslöngur(með of miklum þrýstingi á semsagt).

Annars veit ég ekki hvernig þetta hefði farið ef Steven Gerrard hefði ekki leitt hópinn eins og sönnum fyrirliða sæmir.

Hvað er annars sameiginlegt með þessu tvennu hér fyrir neðan???
=

föstudagur, 26. nóvember 2004

Ekkert spes

Ekkert sérstakt blogg í dag nema það kannski að mig grunar að það verði sætaskipti í Draumadeildinni eftir þessa umferð...(**smella hér til að fá stemninguna**)

Svo getur fólk spáð í þessa mynd um helgina, hafið hana góða.? Hauskúpa eða borð ?


miðvikudagur, 24. nóvember 2004

Réttu mér vatnskönnuna

Lítið að gerast hjá mér annað en það að ég er þyrstur, alveg moldþyrstur. Eldaði saltkjöt í matinn og baunasúpan mín var alveg gjörsamlega briiimsölt! En hún var góð engu að síður eins og kjötið og allt. Þeir sem ekki vita hvað saltkjöt er þá er það kjöt sem kemur af Saltdýrinu sem lifir villt í Himalayafjöllum í Suður-Asíu milli Kína og Indlands, nánar tiltekið í Nepal. Þá hafið þið það.

Sigvarður stubbur kom í létta pössun í dag, alltaf gaman að fá hann í heimsókn.

Tvær jólaseríur komnar útí glugga, einhver mesta jólaskreyting sem ég hef komið nálægt um ævina, hananú! Hef ekki verið duglegur við þetta í fortíðinni, það verð ég að viðurkenna. Hef yfirleitt verið neyddur til þess. Núna er ég sætta mig við þessar skreytingar loksins og finnst þær hlúa að sálartetrinu í bleksvörtu skammdeginu.

Svo tókum við skötuhjúin göngutúr hér um þveran og endilangan Kópavoginn í kvöld, það var bara hressandi, jájá hressandi bara. Tók með mér vatnsdunk í ferðina, annars hefði ég sennilega farið að sleikja malbikið.


Liverpool-liðið get ég ekki talað um, svo miklar eru hörmungarnar...

Hvað er annars málið með þessar kokteilpylsur hér?


þriðjudagur, 23. nóvember 2004

"Heitasta" málið í dag?!!

Lesist í æsifréttastíl!! Dragið djúpt andann þegar upphrópunarmerki koma-->!!

Bloggsíðan garon.blogspot.com bregst ekki lesendum sínum frekar en fyrri daginn!! “Með puttann á púlsinum”, það eru lýsandi orð yfir síðuna þessa dagana!! Eins og flestir vita þá hefur verið mikill bruni niðri á Klettagörðum í nótt og í dag og hvað gerir fréttaritari garon.blogspot.com annað en að fara á staðinn til að færa lesendum stemninguna beint í æð!! Í myndböndunum sem hér fylgja koma við sögu slökkvilið, lögregla, höfrungur, útvarpsviðtal, ríkisútvarpsbifreið, vegtálmar og fleira!!


Ég veit að svona GIF-myndir eru óþolandi á vefsíðum þannig að ég ákvað að setja eina inn...

Hér er smá nasasjón!!
Sjá hér fyrir neðan myndböndin(íslenskt niðurhal)!! Í Myndbandi 2 fór ég nærri brunastað og tók þar með mikinn séns bæði fyrir heilsu mína og líka fyrir þær sakir að lögreglan var á hverju strái!! Lyktinni er ekki hægt að koma til skila í mynbandinu en hún var rosaleg og minnti helst á lyktina af...eeeehh...brennandi dekkjum!! En ég harkaði þetta af mér enda hef ég nú migið í saltan sjó og þetta var barnaleikur miðað við það. En semsagt, þetta hafðist og ég komst heill heilsu í hús með þessar sláandi myndir. Ótrúlegt þrekvirki en hvað gerir maður ekki fyrir lesendur?!?!

Fyrra myndbandið er ca 8 MB en það seinna er 26 MB þannig að þeir sem eru með slow netsamband ættu bara að sleppa þessu.

Myndband 1

Myndband 2

Athyglisvert er að skoða þessa atburði í ljósi vísunnar sem ég orti hér á blogginu þann 5. nóvember, það er greinilega eitthvað yfirskilvitslegt þar í gangi...Nú getur fólk róað sig niður...og þó!?

Ekki má gleyma að minnast á Draumaleikinn. Hér fyrir neðan má sjá skor helgarinnar.

Ekki þarf að rýna lengi í þetta til að sjá að undirritaður og hans lið, Komaso!, fengu langflest stig, langflest! Eru nú aðeins 90 stigum frá toppsætinu og einungis skitnum 20 stigum frá 2. sætinu. Nú er þetta aðeins spurning hvort að ég nái toppsætinu í næstu umferð eða þarnæstu. Komaso! eru komnir í 81. sæti af 6024 liðum á landsvísu, jájájájájá.

Liðin í 1. og 2. sæti og eigendur þeirra geta unað sáttir við að halda sætum sínum þessa umferð en þeir ætla að vera erfiðir ljáir í þúfu...&%($#((&!!

Athyglisvert er að sjá að Góðbjór Albions guldu afhroð og fengu aðeins 290 stig sem hlýtur að teljast...jahh...skelfilegt þegar litið er á heildarpakkann enda lýsir eigandi liðsins bræði sinni með það í commenti hér neðar (18. nóvember).

Það er ljóst að Winchtestertonfieldville Wallabees, og stjóri þeirra Palli G., eru loks að sýna sitt rétta andlit og eru að hrapa niður töfluna eins og....jahh...eins og eitthvað sem hrapar mjög hratt niður töflur - sama er að segja um Hudz F.C., bara spursmál hvenær þeir verða komnir í Stubbadeildina þarna niðri. Um aðra er ekkert að segja að þessu sinni.

Sláandi!

Sláandi blogg framundan hér...haldið ykkur fast í lyklaborðið. Er að smíða það saman umfangið er gríðarlegt. Ég endurtek, sláandi blogg!

fimmtudagur, 18. nóvember 2004

"Halda mætti fram þeirri fullyrðingu að..."


Þetta er fantasían......og hér er raunveruleikinn


Já nú heyrir maður bara "spól-hljóð" daginn út og inn. Ég ætla ekki að agnúast mikið yfir snjónum en ég væri alveg sáttur ef hann héldi sig upp til fjalla. Þetta kostar endalausan pening; snjómokstur, árekstrar og andleg veikindi landans í kjölfarið. Annars vantar mig vetrardekk, ef þú átt 14" nothæfar druslur einhversstaðar þá er ég til í að skoða það mál.

Svona er annars veðrið í Færeyjum ef þið voruð að spá í það:
Veðrið
Eitt lágtrýst, 994 hPa. millum Íslands og Føroya fer skjótt eystureftir og dýpist. Vestan fyri lágtrýstið rekur køld luft móti Føroyum. Lágtrýstið við Lofoten fer spakuliga í landsynning. Hátrýstið yvir Grønlandi fer somuleiðis í landsynning og verður væntandi yvir Føroyum leygardagin.Er voðalega eitthvað andlaus í blogginu núna. Er byrjaður að læra fyrir prófið stóra í desember. Á mjög erfitt með að byrja að læra fyrir próf sem er ekki fyrr en eftir 5 vikur, allan minn lærdómsferil hef ég annaðhvort lítið sem ekkert lært fyrir próf og ef það var lært þá var það yfirleitt síðustu 24 tímana fyrir próf. Það gengur að sjálfsögðu ekki í þessu fagi því að efnið er of-boðs-leg-a mikið sem þarf að fara yfir.

Annars má ég til með að nefna að ég tel mig hafa tekið eftir ákveðnu mynstri í málfari lögfræðinga og nefni ég nokkur dæmi hér því til stuðnings (tekið upp úr bók á hundavaði). Þetta kemur best í ljós við upphaf setninga:
"Hugsanlegt er að lagaákvæði..."
"Rétt getur verið að víkja frá þeirri reglu að..."
"Almennt er viðurkennt að..."
"Það er álitamál hvort telja beri..."
"Óhætt þykir að slá því föstu..."(nærri þvi fullyrðing!)
"Orða má það sem almenna reglu að..."
"Því hefur verið haldið fram að..."
"Orða má það sem almennt sjónarmið..."
"Segja má að..."
Það er einhver svona undirliggjandi tónn í þessu sem er að fullyrða aldrei um neitt. Það er svosem skiljanlegt í ljósi endanlausra undantekninga í lagafrumskóginum. Samt fyndið. Og svo toppar einn virtasti lagaskápur landsins þetta í Fréttablaðinu í gær með því að segja þetta um ímynduð veikindi kennarana: "Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé mjög nærri því að vera ólöglegt". Það er gaman að þessu, þetta á eftir að gera mann snarruglaðan allt saman. Þó er ekki gott að fullyrða neitt um það.....

sunnudagur, 14. nóvember 2004

Annaðhvort eða - ekkert hálf

Ahhh hvað er gott að vera ekki eitthvað ryðgaður og ómögulegur á þessum sunnudegi þar sem vetur konungur hamast við að kæla landann og fólkið á neðri hæðinni er að leggja parket...eða að gera eitthvað sem krefst tíðra hamarshögga. Á ekki að sleppa öllu svona hamarsbrölti á sunnudögum? Það virðast ekki vera nein lög yfir þetta í "Lögum um fjöleignahús" en ég rak augun í það að það þurfa aðeins að vera reglur um hunda-og/eða kattahald í húsreglum fjölbýlishúsa. Þá má maður semsagt vera með krókódíl eða geit hér en ekki hunda og/eða ketti.
74.grein, 3.mgr.
Í húsreglum fjölbýlishúsa skal m.a. fjalla um neðangreind atriði:
1. Umgengni um sameign og um afnot hennar og hagnýtingu.
2. Bann við röskun á svefnfriði í húsinu a.m.k. frá miðnætti til kl. 7 að morgni og undanþágur frá því banni.
3. Skiptingu afnota sameiginlegs þvottahúss.
4. Hvernig þrifum sameignar og umhirðu lóðar skuli háttað og hverjar séu skyldur eigenda í því efni.
5. Reglur um hunda- og/eða kattahald sé það leyft, sbr. 13. tölul. A-liðar 41. gr.
6. Reglur um afnot sameiginlegra bílastæða.
7. Reglur um hagnýtingu séreigna að því marki sem unnt er.
Ég á ekki orð yfir siðleysi Kristins Björnssonar fyrrverandi forstjóra Skeljungs og núverandi hálfvita. Talaði um í viðtali við Stöð 2 í vikunni að "sér hafi orðið hált á svellinu", HÁLT Á SVELLINU?! Hvað er að þessu kvikindi? Og svo toppaði hann þegar hann sagði við fréttamanninn að sér þætti "ósmekklegt" að það væri verið að blanda konunni hans í þetta mál. Kallast þetta ekki að kasta steinum úr glerhúsi? Eða að kasta kleinum úr bakaríi jafnvel?


Liverpool náði með herkjum í gær að vinna "stórliðið" Crystal Palace sem voru án aðalmarkaskorara síns, alltaf sama brasið að vinna þessi skítalið. Í þessum leik skoraði Baros þrennu og í tilefni þess langar mig að velta einu fyrir mér. Það er mjög oft talað um í íslenskum íþróttafjölmiðlum um að "fullkomna þrennuna", sbr. "Milan Baros skoraði á 90. mínútu og fullkomnaði þar með þrennuna." Hvernig er hægt að fullkomna þrennu? Var einhver þrenna í gangi áður en hann skoraði þriðja markið? Nei ekki að mínu áliti, áður en hann skoraði þriðja markið þá var hann bara búinn að skora tvö mörk og því var engin þrenna í spilinu. Þegar hann skoraði þriðja markið þá var hann kominn með svokallaða þrennu, punktur. Áður en þrennan kom þá var hann búinn að skora tvennu.

Þetta er eins og þegar menn tala um að einhver hafi dáið snögglega - annaðhvort er maður lifandi eða dauður, það er ekki hægt að deyja öðruvísi en snögglega.

Lifið heil kæra mannfólk.

þriðjudagur, 9. nóvember 2004

Akkúrat!

Ég veit ekki hvort að einhver man eftir þessu hjá mér, skrifað 27. október síðastliðinn. Þar sem ég talaði um hvað mér finnst einfaldir hlutir vera oft gerðir flóknir í bollaleggingum ýmissa fræðinga, sjá úrdrátt úr bloggi þess dags hér:
"Mér finnst ótrúlegt hvað fræðingar geta flækt einfalda hluti fram og aftur, og þá er ég sennilega aðallega að tala um lögfræðinga. Ég hef oft verið í þeirri stöðu að vera ansi sáttur með einhverja lærdómslotu þar sem ég tel mig hafa komist að einhverri "solid" niðurstöðu um eitthvað ákveðið atriði, tel mig hafa skilgreint eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var áður en ég fór að lesa, svo fer ég að lesa aðeins meira. Og þá gerist það, hugtakið er tekið og krufið gjörsamlega niður í kvarka. Tökum dæmi um fordæmi í Hæstarétti; það eru nákvæmlega 153 blaðsíður í kennslubókum sem ég er búinn að vera að lesa um hvað sé fordæmi síðustu daga, ásamt öðru ítarefni. Eftir að hafa lesið þetta þvælda efni eftir sitthvorn fræðinginn er ég ekki miklu nær, farinn að halda að þetta sé fordæming..."

Rakst svo á þessa tilvitnun sem á að vera frá Albert Einstein, ég tek undir það sem hún segir og hún er í takt við það sem ég var að meina hér að ofan:
"Any intelligent fool can make things bigger and more complex... It takes a touch of genius - and a lot of courage to move in the opposite direction."
Albert Einstein

Eins og talað úr mínu hjarta.

föstudagur, 5. nóvember 2004

Jájájájá....

Austur núna förum við,
gott er það að gera.
Rímar það við slökkvilið?
Og kartöfluuppskera?


Jæja, dýrt kveðið, góða helgi.

fimmtudagur, 4. nóvember 2004

Rest in peace mbl.is

Fyrst og fremst langar mig að fagna væntanlegri bensínstöð Atlantsolíu, vildi óska þess að hún væri komin nú þegar:Jæja Bush hafði þetta nokkuð örugglega, þetta er það sem Kanarnir vilja og lítið við því að segja. Horfði á Ólaf Sigurðsson fréttamann ásamt gestum á Rúv og hann er gjörsamlega snarómögulegur sjónvarpsmaður að mínu viti. Hann hefði átt að vera tilnefndur til Gullkindarinnar, hefði átt góða möguleika þar.


::::Innskot::::

Yoooo, wazzzup Dj Arafat!!:::Innskoti lokið:::
Svo er þetta með friðargæslumennina okkar í Afganistan. Fáránlegt að heyra stjórnarflokkafólk á Alþingi reyna að halda því fram að þetta séu bara venjulegir menn í borgaralegum störfum þarna úti. Þeir mega vera þarna í herleik fyrir mér en það er alveg ömurlegt að vera að reyna að sveigja sannleikann svona með útúrsnúningum og orðaleikjum. Ég er ekki oft sammála Ögmundi Jónassyni og mér finnst hann eiginlega alltaf vera með tómt kjaftæði og aumingjavæl en hann hitti naglann á höfuðið þegar hann spurði hvort að þessir friðargæsluliðar væru venjulegir borgarar dulbúnir sem hermenn...?

Hvað er með mbl.is þessa dagana? Ég skil þá ekki. Þeir eru komnir með aukna þjónustu fyrir áskrifendur þannig að þeir geta sótt fréttir á mbl.is á pdf-formi. Ok, gott og vel. Þetta er fínt og allt það en það er mjög þreytandi fyrir þá sem eru ekki áskrifendur að þurfa að smella á hvern linkinn á fætur öðrum aðeins til að komast að því að hann er aðeins fyrir áskrifendur, það væri lágmark að merkja þessa linka einhvernveginn svo að maður þurfi ekki að fara "linkafýluferð" alltaf hreint. Annars þarf ég ekkert að vera á mbl.is, get fengið fréttirnar annarsstaðar ef ég vill, t.d. á www.visir.is. Þarna held ég að mbl.is sé að grafa sína eigin gröf hraðar en áður.

Uppfært:
Þetta linkavesen sem var í morgun er ekki svona lengur, búið að laga. Greinilegt að ritstjóri Moggans les þessa síðu....

mánudagur, 1. nóvember 2004

Verðum að gera eitthvað...ekki svo galið

Póstur sem er að ganga:

Þetta var að berast mér og ég ákvað senda þetta áfram, enda ekki fráleit hugmynd...


Olíufélögin stálu af okkur peningum í mörg ár. Það liggur skýrt fyrir í niðurstöðum samkeppnisstofnunar. Þeir viðurkenna það, en segja að málið sé fyrnt.
Þeir vilja ekki borga sektir eða skaðabætur vegna þess að það er svo langt síðan þeir stálu frá okkur.

Við getum svarað fyrir okkur.

Það þýðir ekkert að hafa bensínlausan dag. Það er bara rugl því þá verslum við bara meira á morgun.
Við refsum þeim með buddunni og kaupum BARA BENSÍN!
Alveg þangað til þeir hætta að röfla og borga sínar sektir og skammast sín þá kaupum við BARA BENSÍN. Ekki sígarettur, ekki pylsur, ekki hreinsiefni, leikföng, nammi, mat, hanska, grill né neitt annað, við kaupum allt slíkt annars staðar.

Hjá olíufélögunum kaupum við BARA BENSÍN! EKKERT ANNAÐ! Þeir finna fyrir því.

Dreifðu þessu á þína vini og stattu við það að kaupa BARA BENSÍN.
Næst þegar þú freistast til þess að kaupa eitthvað annað á bensínstöð en BARA BENSÍN þá sannar þú orð markaðsstjóra OLÍS sem sagði í samráðinu "Fólk er fífl".

Vilt þú láta hafa þig af fífli? Ef ekki þá kaupir þú BARA BENSÍN.

Almenningur.

Félögin sem um ræðir eru:
Skeljungur(Shell), OLÍS og ESSO