sunnudagur, 31. október 2004

Rökhugsun skal það vera heillin

Það voru eitt sinn 2 lögfræðingar sem voru í safari ferð í Tansaníu. Þeir lögðu bíl sínum og fóru svo að ráfa um svæðið. Allt í einu löbbuðu þeir fram á stórt og mikið ljón, ljónið leit á þá, stóð upp og gerði sig líklegt til að ráðast á þá. Þá hóf annar lögfræðinganna að klæða sig úr þungum stígvélunum sem hann var í. Hinn leit undrandi á hann; "Hvað ertu að gera maður?" spurði hann. Hinn svaraði; "Við verðum að hlaupa að jeppanum og ná í riffil". Hinn leit þá skelfingaraugum á hann og sagði; "Ertu brjálaður maður? Við náum aldrei að hlaupa þangað, ljónið nær okkur". Þá sagði hinn; "Ég veit það vinur minn en ég þarf bara að hlaupa hraðar en þú".

föstudagur, 29. október 2004

Jah! Hver þremillinn!

Veit ekki hvort að allir sem þekkja mig viti að ég er útskrifaður Forritunar- og kerfisfræðingur frá hinum virta skóla NTV. Stundaði námið á kvöldin og um helgar á Selfossi með vinnu í kringum árið 2000. Ég náði öllum prófum en fannst þetta hundleiðinlegt, ekki kannski frá A-Ö en kannski frá F eða eitthvað svoleiðis, ástæðan fyrir því að ég hætti ekki þegar ég fékk ógeð var að það var rukkað fyrir allt námið áður en maður byrjaði. Þannig að það var þrjóskan sem kom mér í gegnum þetta. Kennararnir voru misjafnir en aðallega voru þeir tveir sem kenndu stærstan hluta námsins. Annar var, síðast þegar ég vissi, "óstaðsettur í hús". En menn muna kannski hvað þessi frasi þýðir sem sáu heimildamyndina um Lalla Johns. Það var nokkrum sinnum vínlykt af honum í tímum og þá er ég ekki að tala um Lalla. Þessi kennari var að mínu mati hálfviti og ég var ekki einn um það álit í bekknum. Ég vil ekki vera með nafnabirtingar en ég myndi ekki neita því ef einhver myndi giska á að hann héti Trausti.

Hinn er staddur á öðrum stað, sjá forsíðu DV...Þessi síðarnefndi var ágætur svosem en hann er greinilega búinn að villast af hinni grýttu braut réttvísinnar. Ég ætla ekki að vorkenna honum, hann tók áhættu og verður að taka afleiðingum, góðum eða slæmum. Var búinn að sjá nafnið hans á www.dopsalar.tk að vísu fyrir nokkru.

Var ég svona erfiður nemandi eða er þetta tilviljun? Ja...maður spyr sig.

miðvikudagur, 27. október 2004

Hertar aðgerðir og Steingrímur

Jæja fyrsta mál á dagskrá er að ég boða hertar aðgerðir varðandi Draumaleikinn, þ.e. varðandi þá sem ekki hafa tilkynnt sig sem eigendur liða í hópnum Apollon. Sendi vefstjóranum póst með tilheyrandi yfirlýsingu, sjá hér.

Annars er allt við sama heygarðshornið; læra, sofa, borða, fara á klósettið, fara á fyrirlestra, spekúlera, geðsveiflast, þrífa sig, blikka augunum, spá, draga andann og eitthvað.

Verð aðeins að létta af mér varðandi eitt atriði. Mér finnst ótrúlegt hvað fræðingar geta flækt einfalda hluti fram og aftur, og þá er ég sennilega aðallega að tala um lögfræðinga. Ég hef oft verið í þeirri stöðu að vera ansi sáttur með einhverja lærdómslotu þar sem ég tel mig hafa komist að einhverri "solid" niðurstöðu um eitthvað ákveðið atriði, tel mig hafa skilgreint eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var áður en ég fór að lesa, svo fer ég að lesa aðeins meira. Og þá gerist það, hugtakið er tekið og krufið gjörsamlega niður í kvarka. Tökum dæmi um fordæmi í Hæstarétti; það eru nákvæmlega 153 blaðsíður í kennslubókum sem ég er búinn að vera að lesa um hvað sé fordæmi síðustu daga, ásamt öðru ítarefni. Eftir að hafa lesið þetta þvælda efni eftir sitthvorn fræðinginn er ég ekki miklu nær, farinn að halda að þetta sé fordæming...

Skynsemin segir manni þó að þetta sé eitthvað sem smellur svo einn góðan veðurdag eða slæman en það breytir því ekki að ég er með miklar efasemdir um hæfni þessarra manna sem skrifa fræðiritin til að koma frá sér efni á mannamáli um hluti sem eru tiltölulega einfaldir, þannig séð. Ætli þetta sé ekki hluti af menntasnobbi að gefa frá sér einhvern ógurlegan doðrant sem enginn skilur almennilega. Sjá dæmi hér fyrir neðan úr aðalkennslubókinni, ekki um fordæmi þó:
"Bent hefur verið á að árið 1740 hafi skozki heimspekingurinn David Hume (1711-1776) haldið því fram að ekki sé unnt að leiða það sem "ber" af því sem "er", eða með öðrum orðum að fullyrðing reist á reglu eða fyrirmælum yrði ekki leidd af staðreynd, óbrúanlegt bil væri milli verkunar reglu (norms) og staðreyndar. Það merki þó ekki að staðhæfing um það sem "ber" feli í sér vísan til sérstakrar tilveru fjarri öllum áþreifanlegum veruleika. Þótt slík staðhæfing lýsi ekki staðreynd, þá feli hún í sér fyrirmæli um hegðunarferli reist á viðmiðum sem leggja má til grundvallar við mat á því ferli."
Einmitt......eeeiiiinmitt. Góður punktur þetta Herra geimvera.

Annars held ég að lögfræðingar séu ekki einir um þetta, sá í Fréttablaðinu í dag að kynlífsfræðingur var að tala um "kynverund". Einmitt já, kynverund...hafðu það eins og þú vilt væna.

Það á ekki að skilja mig þannig að ég sé eitthvað að tapa mér yfir þessu öllu saman en ég varð bara að létta þessu af mér.


Þegar ég er ekki viss um eitthvað, sem er ansi oft, þá spyr ég bara Steingrím hvert svarið sé. Hann er sköpunarverk mitt og við erum ágætis vinir. Hann vakir yfir mér hér við skrifborðið þar sem ég dvel jafnan. Það er eitthvað við hann Steingrím sem ég kem ekki fingri á, ætli það sé ekki bara það að hann er bæði í senn sorgmæddur og glaður, svona rétt eins og ég...Steingrímurföstudagur, 22. október 2004

Að venda kúm

Er farinn austur á bóginn til að halda tengsl við uppruna minn og rækta átthagana. Römm er sú taug sem rekka dregur, föðurtúna til. Jájájá...

Draumaleiksmenn! Búið ykkur undir kúvendingu.

fimmtudagur, 21. október 2004

To serve and protect

Fimmtudagar eru dagarnir á eftir miðvikudögum og einnig þeir sem á undan föstudögum koma, ósköp leiðinleg rútína ef maður spáir í það. En við sættum okkur við það. Þannig hefur þetta verið lengi og þannig mun þetta verða lengi. Það eru 7 dagar í vikunni en flest okkar hafa ekki hugmynd um afhverju, allavega ekki ég. En afhverju er talan sjö svona algeng? Tökum nokkur dæmi:

7 vikudagar.
7 undur veraldar.
Guð skapaði heiminn á 7 dögum er haldið fram.
Dauðasyndirnar 7.
7 hliðar á sjöhyrningi.
7 horn á sjöhyrningi.
7up drykkurinn.
Dvergarnir 7.

Svona mætti lengi telja...


Hélstu virkilega að ég væri með eitthvað djúpt þarna á ferðinni? Nei, þar skjátlaðist þér.


Annars er ég að lesa Sögu Íslands III. bindi, um lögfestingu konungsvalds. Geeeeiiiisp! Sagan hefur einstakt lag á að vera jafn leiðinleg og hún er skemmtileg.


Þú ert á valdi mínu...Þig langar að geispa...Láttu vaða það sér það enginn...

AAAAAAAA...DV/handrukkaramálið vindur upp á sig og sér ekki fyrir endann á því. Sigurður Líndal lagaskápur er alltaf að koma með leiðsögutilgátur sem við eigum að spá í, hann kom með eina í gær sem við áttum að rannsaka í hugskoti okkar í framtíðinni. Hún var svona: "Eftir því sem ágreiningsefnið er óljósara, þeim mun illskeyttari og harðvítugri verður deilan." Ég hef ekki hugleitt þetta mikið, sjálfsagt er þetta stundum svona og stundum ekki eins og allt í þessu lífi. En ég er með aðra tilgátu sem hljómar svona: "Eftir því sem brotin eru alvarlegri, þeim mun meira helvítis klúður og getuleysi er á löggæslunni!" Hver kannast ekki við það að vera tekinn á aðeins of miklum hraða eða að fá stöðumælasekt, vera ekki með bílbelti eða að gleyma ökuskírteininu og fá sekt fyrir það allt saman án þess að fá rönd við reist. Einu sinni var ég stoppaður með þokuljósin á bílnum í akstri á Selfossi, löggan stoppaði mig og virðulegur lögreglumaðurinn var með stæla við mig þegar ég sagði honum að ég hafi ekki vitað af því! Djöfull hugsaði ég honum þegjandi þörfina... Stofnum dauðasveit sem er friðhelg frá lögum, svo gæti hún líka bara látið það líta út eins og sjálfsmorð. Það virðist vera aðferðin sem menn nota...

2. Mósebók 21:24
"...auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót,..."

Læt hér að lokum fylgja með 1. grein, 2. tölulið Lögreglulaga til umhugsunar:

2. Hlutverk lögreglu er:
a. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi,
b. að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins,
c. að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum,
d. að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að,
e. að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á,
f. að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu,
g. að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju.

mánudagur, 18. október 2004

Notið scrolltakkann...

Ja góðan daginn hér og nú góðir hálsar og aðrir líkamshlutar. Ég ætla að reyna að halda áfram þessu stopula bloggi mínu.

Maður virðist hafa eitthvað lítið að segja þegar maður er á kafi í lærdómi og því hef ég verið að koma með einhverskonar gátur og aðra vitleysu svona öðru hvoru til að halda einhverju smá flæði inn á þessa síðu. Helgi Jóns vissi svarið við fyrri gátunni og það var að sjálfsögðu Helgi Hóseason nafni hans sem skvetti tjörukenndu efni á Stjórnarráðið til að mótmæla einhverjum andskotanum. Seinni gátan innihélt einhverskonar textabrot úr dómi yfir Steingrími Njálssyni þar sem siðblinda hans var til umfjöllunar. Bjórmálaráðherra sá við mér þar og var ekki lengi að giska á rétt svar. Bjórmálaráðherra virðist vera mikill gátumeistari en er alveg snarómögulegur í Draumaleiknum okkar...

(tenging...jájá)

Talandi um Draumaleikinn, ég tel mig nokkuð vissan um að ég muni ekki hljóta jafn mikið afhroð þessa vikuna eins og síðustu tvær. Að vísu setti Chelsea-leikurinn svolítið strik í reikninginn hjá mér en ég vona bara að einhverjir aðrir hafi stigið í sama drullupoll og ég þar. Það er aðeins einn leikur eftir í umferðinni og hann er í kvöld. Nú verður spennandi að sjá hver fær flestu stigin og keppikefli mitt er að fá fleiri stig í umferðinni heldur en Forsætisráðherra Góðbjórs og Palli G. en þeir hafa verið hvað duglegastir við að hreyta í mig ónotum síðustu vikur... :) Ekki illa meint eins og Þórhallur miðill segir óþolandi oft.

(tenging...jájájá)

Og talandi um hann þá er ég orðinn mjög leiður á hans málflutningi og það er ótrúlegt hvað dautt fólk hefur frá litlu að segja. Helst snýst það um hvað lifandi menn eru góðir eða slæmir söngvarar, hvar myndir eru staðsettar á veggjum og annað svipað ómerkilegt. Það var meiri dulúð yfir Þórhalli þegar hann var í útvarpinu og maður heyrði minna og sá af honum. Komdu með eitthvað krassandi Þórhallur annars geturðu gleymt þessu hvað mig varðar.

Annars var það að gerast um helgina að ég fór í þetta blessaða próf þarna á laugardagsmorgninum kl. 9. Annað veigamesta prófið á önninni og ég var búinn að vera í viku að læra fyrir það. Mér fannst ganga vel að læra svona framan af vikunni en svo á fimmtudeginum fannst mér eins og ég væri að heimskast í þessu upp á nýtt, kominn í hring einhvernveginn. Manni finnst kannski eitthvað vera borðleggjandi til að byrja með en svo les maður bollaleggingar fræðimanna um þennan "einfalda" hlut og þá eru þeir allir á öndverðum meiði gagnvart því og maður hendist á milli skoðana eins og tryllt hæna. Já, tryllt hæna. Mér fannst prófið vera erfiðara en þau gömlu sem ég hafði tekið til að æfa mig á, kannski er það einhver ímyndun í mér og ég er gríðarlega spenntur að heyra hvað öðrum nemendum fannst um þetta próf. Ég ætla ekki að vera með neinar stórar yfirlýsingar með útkomuna úr þessu og ég skipti um skoðun á 5 mínútna fresti um það hvort að mér finnist ég hafa náð eða ekki. Það kemur víst í ljós innan 3ja vikna og ekki getur maður breytt neinu héðan af, það er eitthvað sem maður veit upp á hár.

Mamma, pabbi, María, Mikki og Gabríel voru hjá okkur í Engihjallanum á laugardagskvöldið. Við borðuðum saman og ræddum um allt á milli himins og jarðar. Það er mikið búið að ganga á í þeirra lífi síðustu misserin eins og komið hefur fram og virðist nú vera að lægja vind eitthvað, sem betur fer. María er sveitt í námi eins og ég og ég óska henni góðs gengis í prófinu sem hún er að fara í á morgun.

Svo horfði ég á Silfur Egils á sunnudeginum og þar horfði ég á Bjarna Harðarson reyna að gera lítið úr Mikka með gjörsamlega ömurlegum hætti. Bjarni reyndi að gera því skóna að Mikki ætti ekki að ala upp börn vegna þessa að hann væri ritstjóri á DV. Það er kannski hægt að segja margt misjafnt um DV en að reyna að bera saman að jöfnu föðurhlutverk hans við ritstjórahlutverkið var alveg fáránlegt og honum til mjög mikillar minnkunar. Það er jafn fáránlegt að reyna að halda því fram að fólk sem borðar tómata séu lélegir bílstjórar. Ég get vottað það að Mikki sinnir föðurhlutverki sínu af mikilli ástríðu og það var örugglega þess vegna sem hann æsti sig ekki upp í þættinum. Þeir sem vita betur þurfa ekki að svara dylgjum annarra. Ég var búinn að finna e-mailið hjá Bjarna og var með það fyrir framan mig og ætlaði að senda honum nokkur vel valin orð en svo hætti ég við, hefnd á að bera fram sem kaldan rétt á hlaðborði lífsins (speki). Og svo kemur þetta mér ekki beint við, Mikki er fullfær um að há sínar orrustur sjálfur.

Ég ætla ekki að hafa þennan pistil lengri í dag, sæl að sinni.Uppfært! (á þriðjudegi)miðvikudagur, 13. október 2004

Önnur gáta

Innsæi í eigin mál var lítið og dómgreind léleg, f.o.f. í málum, sem sneru að félagslegum högum hans og mannlegum samskiptum. Kom þetta m.a. vel fram, þegar framtíðaráform voru rædd við hann. Áberandi var nú eins og áður, hve afneitandi X er á eigin vandamál, hve hann réttlætir eigin hegðun ákaft, jafnvel þegar hann sér, að öllum öðrum sé ljóst, að hann hafi gerst brot­legur. Hann forðast í lengstu lög að taka ábyrgð á eigin gerðum og virðist lítið læra af því, sem áður hefur gerst í hans lífi. Og þegar þörf og möguleikar á meðferð eru ræddir, þá á hann erfitt með að fjalla um þau mál út frá vandamálum sínum, heldur lítur hann á þannig umræðu sem tækifæri til að semja um stöðu sína.

Um hvern er verið að tala þarna?


þriðjudagur, 12. október 2004

Gáta

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins var kærði staðinn að verki við að sletta tjörukenndu efni á veggi Stjórnarráðshússins við Lækjargötu hinn 23. þ. m. Er í skýrslu lögreglu haft eftir honum, að hann væri með þessu að „mótmæla því, að nafn hans væri skráð í Þjóðskrá, og einnig tók hann fram, að hann æti ekki úldið hrossakjöt." Kærði var færður í fangsgeymslu lög­reglunnar, en síðan í fangelsið við Síðumúla, og þurfti að flytja hann þangað á börum, þar sem hann neitaði að ganga. Rann­sóknarlögreglumenn reyndu samdægurs að ræða við kærða í fangaklefa hans, en hann svaraði þeim engu.


Hver lét svo ófriðlega? Veit það einhver?


Firefox og Thunderbird

Get Firefox!

Smelltu á myndina hér fyrir ofan og fáðu þér Firefox vafrann í tölvuna þína. Ég er búinn að vera að nota hann í þónokkurn tíma og hann er bullandi góður, trust me. Ekkert vesen eins og með Internet Explorer vafrann sem Microsoft er með. Svo er ég líka með Mozilla Thunderbird e-mail forrit sem er snilld, frá sama fyrirtæki og vafrinn. Þú getur flutt favorites, póstföng og allt svoleiðis á milli í báðum forritum þannig að þú þurfir ekki að byrja upp á nýtt aftur í því ferli. Til að ná í póstforritið er smellt á myndina hér fyrir neðan.

Get Thunderbird

mánudagur, 11. október 2004

Borða læri og læri

Jæja nú er maður bara heima að læra fyrir sveitt próf á laugardaginn. Maður tekur þetta svona í rispum, lærir í ca. 40 mínútur í senn og tekur sér svo létta pásu á milli. Núna er einmitt ein slík í framkvæmd.

Er núna að lesa um "stjórnsýslukerfið og meðferð mála fyrir stjórnvöldum". Rak augun í setningar sem eru hér í kennsluheftinu sem segja; "...ráðherra...er æðsti embættismaður ráðuneytis. Ráðuneytið fer ávallt með vald ráðherrans..." Þetta orðalag hljómar kannski kunnuglega í eyrum sumra ef það er tengt við fjölmiðlamálið síðasta sumar. Mikið var þrasað um það hvort að forsetinn hefði í raun eitthvert vald eða ekki. Okkur er kennt í lagadeildinni að forsetinn hafi í raun ekkert vald því að hann lætur ráðherrana fara með vald sitt; "13. gr. Stjórnarskrárinnar: Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt." Það efast enginn um vald ráðherra en afhverju er þá efast um vald forseta? Menn vildu meina að forsetinn hefði ekkert vald því að hann láti aðra framkvæma valdið. Ókei. Ef ég er forstjóri í mínu eigin stórfyrirtæki þá mun ég sennilega ráða til mín framkvæmdarstjóra sem ég mun láta fara með vald mitt. En hann má ekki gleyma því að hann væri valdlaus ef að ég myndi ekki láta hann framkvæma mitt vald. (Við skulum ekki blanda persónum inní málið því að það vekur upp tilfinningar og þær er bannað að hafa þegar þú ert að spá í lögfræðilegum málum, þess vegna eru lögfræðingar svona leiðinlegir...)

Þetta eru stafkrókapælingar hjá mér og ekki má gleyma því að þetta eru orð kennarans í heftinu á móti grein í Stjórnarskránni. Ekki alveg sambærilegt en þó kennsluefni bæði. Það má kannski spá í það hvað það þýði að "fara með vald" vs. "að framkvæma vald". Er það sami hluturinn? Og svo þegar allt kemur til alls þá er valdið að sjálfsögðu hjá okkur almúganum því að við erum hlutahafar í þessu fyrirtæki sem kallast Ísland og kjósum menn til að reka þetta fyrirtæki á fjögurra til tveggja ára fresti(forseti eða alþingismenn). Ég er orðinn alveg ruglaður á þessu en kannski er bara best að gera það sem kennararnir segja og vilja til að byrja með og ekki rugga bátnum... Maður verður kannski aðeins að stúdera þetta betur til þess að geta talað af fullri sannfæringu. En nóg um það.

Það var matarboð hérna í Engihjallanum í gær. Ingi, Heiðbjört, Sigvarður litli og Atli komu í mat og það heppnaðist mjög vel. Það eina sem vantaði var Laxi, sonur Atla.

Hér er mynd af tvífara Laxa.Lambalæri, brúnaðar kartöflur, endalaust meðlæti, eftirréttur og allur pakkinn...úff ég var alveg búinn eftir þetta og maginn var eitthvað vafasamur í gærkvöldi og nótt. Hérna eru myndir úr Reyðarvatnsréttum til heiðurs öllum lambalærum framtíðarinnar.Ég ætla ekki að minnast á handrukkara eða annan úrgang mannkynsins því að þá gæti ég sagt eitthvað sem hentar ekki öllum að lesa.

fimmtudagur, 7. október 2004

Ronaldinho

Í tilefni af kjöri á FIFA World Player of the year 2004 vill ég gefa þessum manni atkvæði mitt(sem er einskis virði) Smellið hér!

þriðjudagur, 5. október 2004

Af hundum heitum og afbrigðilegheitum

Það er orðið ansi langt á milli blogginnleggja hjá manni, sennilega er það vegna þess að tíminn er ekki mikill til að standa í þessu, allt á botni í skólanum. Ekki svosem mikið meira um það að segja.

Menn eru farnir að hnýta í mig varðandi Draumaleikinn þar sem ég er búinn að missa af toppsætinu og það allrosalega. Hér er staðan:

Lið í þessum hóp - Stig - Stig í síðustu umferð
Wengers understudy. 2710 450
Winchtestertonfieldville Wallabees 2690 440
Góðbjór Albions 2620 410
F.C Tinni 2570 320
Hudz F.C 2540 350
Scotland FC 2510 360
Komaso! 2500 280
Gúrkan 2350 350
Mendozas fat dogs 2260 210
Ólafsrauður 2210 350
Houllier 2060 250
Butts_BlingBling 2050 320
Sir drink alot 1290 190
Mök í Flösku 650 320
Jón Hanson 340 340
kingpin fc 0 0
Gunni Þóris er í 1. sæti, Palli G. er í 2., Kiddi Nonni er í 3., Höddi er í 5. og ég er fallinn niður í 7. sæti. Öðruvísi mér áður brá, en núna bregður mér svona. Fyrir aðeins tveimur umferðum síðan var ég í toppsætinu og ekkert virtist ætla að stugga við mér en þessir andskotar sitja um mann eins og hrægammar og bíða eftir að maður misstígi sig. Þetta er ekki búið og ég mun sýna mitt rétta andlit í næstu umferð.

Fór á tónleika með Van Morrison á laugardagskvöldið. Pabbi er mikill Van Morrison aðdáandi og bauð hann okkur Dýu með. Við skunduðum í Laugardalinn ásamt fríðu föruneyti. Það er skemmst frá því að segja að tónleikarnir voru mjög góðir og eðaltónlistarmaður þarna á ferðinni. Svo var farið á skrall á eftir. Marmelaðiumræðan kom við sögu í upphitun fyrir tónleikana og spannst hún út í pylsuumræðu, þ.e. hvað fólk notar á pylsuna sína. Fólk talaði fjálglega um sósur og annað sem það vill nota á bjúgað sitt og kom þar margt athyglisvert fram. Frændi minn hélt því fram að hann notaði eingöngu steiktan lauk á pylsuna en hann hlýtur að hafa mismælt sig eitthvað því að það er aðeins ein formúla til;
brauð,
tómatsósa,
steiktur laukur,
smá remúlaði,
pylsa
og vel af sinnepi ofan á. ATH ekkert nema sinnep ofan á pylsuna! Ég heyrði ein rök fyrir því að það ætti ekkert að vera ofan á pylsunni og þau voru tengd nefstærð, það er eina undantekningin sem hægt væri að gera frá meginreglunni sem ég greindi frá áðan.


ps. Það ku vera falleg hross í Þorlákshöfn...

sunnudagur, 3. október 2004

Áhugavert...?

Innlent | mbl.is | 3.10.2004 | 12:19

Sneri sig illa á fæti við fall í Kárahnjúkum

Lögregla á Egilsstöðum fékk tilkynningu á tíunda tímanum í morgun um að starfsmaður við Kárahnjúkavirkjun hefði fallið niður af steypujárnageymslu og meiðst. Í ljós kom að maðurinn hafði snúið sig illa á fæti við fallið. Ekki þurfti að fara með manninn til skoðunar á Egilsstöðum vegna slyssins.