miðvikudagur, 28. júlí 2004

Piparpúki!

Góðan daginn. Veiktist á mánudaginn í hádeginu og keyrði austur samstundis því ég ætlaði hvort sem er að fara þangað eftir vinnu, bíllinn minn var þar í viðgerð og eitthvað. Varði þriðjudeginum fyrir austan til að jafna mig. Fyrir þá sem ekki vita þá er ég að kljást við ofnæmi sem virðist herja á mig tilviljunarkennt, þegar verst lætur á ég það til að líta út eins og boxari sem er búinn að fara í gegnum 12 lotur á móti Mike Tyson. Mjög þreytandi allt saman og erfitt að koma fingri á það hvað það er sem er að fara svona í mig. Að vísu var kona, sem er að vinna með mér hérna í TR, að benda mér á að ég var nýbúinn að éta "Piparpúka" sem er nammi frá Nóa-Síríus þarna á mánudeginum. Kannski að ég rannsaki það aðeins betur...

En nóg um það, er annars kominn hérna í bæinn að vinna á ný og ekkert meira um það að segja.

Annars gengur lífið bara nokkuð vel þessa dagana og margt skemmtilegt í gangi sem ég segi kannski frá síðar. Núna er Dýa eins og óð fluga að undirbúa tjaldferðalag um næstu helgi, stefnan er að fara með FatDogMendoza og heitkonu hans eitthvað að elta sólina ef hún lætur sjá sig einhversstaðar. Lesendur hér vita skoðanir mínar á tjaldferðalögum og ég nenni ekki að viðra þær eina ferðina enn. Þó reyni ég að vera ekki neikvæður og er til í að reyna einu sinni enn, það eru jú bara næturnar sem mér finnast erfiðar. Mér finnst betra að vera lóðréttur í tjaldferðalögum.

Nú er ég á fullu að reyna að redda mér ódýrum bókum vegna lögfræðinámsins í vetur, ef einhver er með upplýsingar sem gætu gagnast mér þá væri að það vel þegið í gegnum "comment" eða e-mail (e-mailið mitt er fyrir neðan hverja færslu, bara að smella), vil ekki skrifa það hér beint því að það eykur líkur á spam-pósti eða ruslpósti eins og hann kallast venjulega.


ps. Smellið hérna og skrifið undir ef ykkur langar.

Engin ummæli: