mánudagur, 22. september 2014

Lærum af reynslunni - Hvernig kostnaður getur farið úr böndunum

Nú stendur til að byggja við dvalarheimilið Lund sem er jákvætt og gott mál. Enginn vafi á því. Kostnaðaráætlun er 240 milljónir. Gæta verður að því að byggingarkostnaður fari ekki úr böndunum svo að hægt sé að sinna rekstri sómasamlega þegar framkvæmdum er lokið. Þannig veitum við hinum öldruðu bestu þjónustuna.

Nýleg byggingarframkvæmd á vegum sveitarfélagsins Rangárþings ytra er Miðjan á Hellu. Framkvæmdir hófust árið 2009 og eru enn í gangi. 

Full ástæða er til að rifja upp helstu punkta í kostnaðaráætlunum Miðjunnar til að minna okkur á hvað auðvelt er að missa tökin ef ekki er rétt á málum haldið. Þessi upprifjun mín er áminning og hvatning til þeirra sem verða í forsvari byggingarframkvæmdanna við Lund.

Ekki missa tökin. Ekki vera kærulaus.

Hér eru helstu vörður í undirbúningi vegna Miðjunnar á sínum tíma í tímaröð. Neðar kemur í ljós hvernig tókst að halda áætlun. Athyglisvert er að skoða stjórnsýsluna í þessu máli.


Júlí 2006 - Fundur framkvæmdaráðs
Kostnaðaráætlun 200-250 milljónir. 160 þús pr. fermetra. 1.530 fm. bygging.


September 2006 - Áfangaskýrsla AÞS
Kostnaðaráætlun 247 milljónir. 168 þús pr. fermetra. 1.470 fm. bygging.


Nóvember 2006 - Fundur framkvæmdaráðs
Kostnaðaráætlun 250 milljónir. 200 milljónir lán. 50 milljónir frá hluthöfum.


Nóvember 2006 - 5. fundur hreppsnefndar
Kostnaðaráætlun 276 milljónir. RY verði með 43% eignarhlut. Leggi fasteign sína (Suðurlandsveg 1) inn og komi með 25 milljónir í reiðufé.


Desember 2006 - Fundur framkvæmdaráðs
Kostnaðaráætlun 276 milljónir. RY verði með 53% eignarhlut. 95 milljónir fasteign og 42 milljónir í reiðufé.*(Hlé gert í heilt ár frá vinnu við undirbúning.)Janúar 2008 - Fundur framkvæmdaráðs
X milljónir. 870 fm. bygging.


Febrúar 2008 - Fundur framkvæmdaráðs
Kostnaðaráætlun 192 milljónir. 1.040 fm. bygging.


Mars 2008 - Fundur framkvæmdaráðs
Kostnaðaráætlun 207 milljónir.


Maí 2008 - 26. fundur Hreppsnefndar
Kostnaðaráætlun kynnt á fundi sveitarstjórnar sem 207 milljónir. RY með 50% hlut. RY með 58 milljónir í stofnframlag. Lán félagsins yrðu 91 milljón. 5 samþykktu. 2 sátu hjá.


Ágúst/september 2008 - Hönnunarfundur
Byrjað að grafa fyrir byggingu.


*(Október 2008 - Efnahagshrun)Janúar 2009 - Fundur hreppsnefndar - Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009
Gert ráð fyrir 60 milljóna framlagi í tengibyggingu.


23. janúar 2009 - Fundur framkvæmdaráðs
Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir er sagt. Framlag eigenda 116 milljónir (58+58). RY "ábyrgist fjármögnun á eftirstöðvum kostnaðar við framkvæmdina”. Ha? Opinn tékki á RY?
Sjá fundargerð.


27. janúar 2009 - Fundur framkvæmdaráðs
Kostnaðaráætlun tilkynnt fyrir framkvæmdaráði sem 350 milljónir... Ha? Átti það ekki að vera 207 milljónir? Þarf ekki að bera þetta undir sveitarstjórn aftur fyrst þetta er orðið svona miklu hærra?

RY komið með ábyrgð á eldri 58 milljónunum + nýjum 143 milljónum = 201 milljón. (Og svo líka opinn tékki ef það fer framúr þeim áætlunum.)


September 2009 - Útboði 1. og 2. áfanga lokið
  1. áfangi 83 milljónir.
  2. áfangi 300 milljónir.
Samtals kostnaðaráætlun upp á 380 milljónir? Ha? Átti þetta ekki að kosta 207 milljónir?
Allt gler í bygginguna og fólkslyfta voru utan útboðs. Frágangur lóðar einnig.


Rauntilboð í þessa áfanga voru 40 m + 215 m = 255 milljónir.


Desember 2009
RY hefur á þessum tímapunkti lagt 50 milljónir af reiðufé í bygginguna sem er í samræmi við fjárhagsáætlun RY fyrir árið 2009.Janúar 2010 - Verkfundur
Tafir á greiðslum frá verkkaupa. Valdahlutföll í verkinu farin að snúast þar sem verkkaupi (Miðjan) stendur ekki við gerða samninga.


Janúar 2010 - Fjárhagsáætlun RY fyrir árið 2010
0 krónur áætlaðar í tengibyggingu. Núll krónur.


Janúar 2010 -  53. fundur hreppsnefndar
Greiðslur til tengibyggingar orðnar “83 milljónir” frá RY. (Var ekki bara heimild fyrir 60 milljónum?)


Janúar 2010 - Stjórn Suðurlandsvegar 1-3 ehf.
“Verkefnið ber lán upp að 150 milljónum. Vantar 85-90 milljónir núna. Verður að koma frá eigendum.” (Átti ekki bara að taka 91 milljón í lán? Og svo 116 milljónir frá eigendum?)


4. mars 2010
RY leggur 60 milljónir inn á reikning Suðurlandsvegar 1-3 ehf.


29. mars 2010
RY fær 60 milljóna króna lán frá Lífeyrissjóði Rangæinga.


23. apríl 2010
Vinna lögð niður af verktaka vegna langvarandi tafa á greiðslum.


14. maí 2010
RY hefur lagt til byggingarinnar 118 milljónir. (Heimild var fyrir 60 milljónum.)
Desember 2010
Byggingarkostnaður orðinn 390 milljónir. (Tilboð í verkið voru 255 milljónir frá verktökum.)
Aukakostnaður/framúrkeyrsla þá orðin = 135 milljónir.

Margir héldu að byggingarframkvæmdir væru á lokastigi á miðju ári 2010 (í kringum kosningar). Eins og sjá má hér neðar á kostnaðartölum þá var það ekki svo.

--------------------------------------------------------------------------------------------


Desember 2011
Byggingarkostnaður orðinn 478 milljónir. (Tilboð í verkið voru 255 milljónir frá verktökum.)
Aukakostnaður/framúrkeyrsla þá orðin = 223 milljónir.


Desember 2012
Byggingarkostnaður orðinn 547 milljónir. (Tilboð í verkið voru 255 milljónir frá verktökum.)
Aukakostnaður/framúrkeyrsla þá orðin = 292 milljónir.

---------------------------------------------------------------------------------------------------


Samandregið:
  • Við síðustu áramót 2013/2014 var byggingarkostnaður orðinn 551 milljón.
  • Heildarfjárfesting Suðurlandsvegar 1-3 efh. er 746 milljónir þar sem eldri hliðarhás voru lögð inn í félagið sem hlutafé bæta rekstrargrundvöll félagsins (auknar tekjur).
  • Upphafleg samþykkt RY í maí 2008 var miðuð við 207 milljónir í heildarbyggingarkostnað. Heildarbyggingarkostnaður er kominn í 551 milljón. Komið 344 milljónir umfram fyrstu áætlun.
  • Upphafleg samþykkt RY gerði ráð fyrir að útvega þyrfti 58 milljónir í reiðufé af hálfu RY.
  • Heildarframlag RY er orðið nálægt 300 milljónum. (Fasteignin Suðurlandsvegur 1 +  reiðufé).
  • Rekstur Miðjunnar skilaði 27 milljóna króna tapi fyrir eigendur sína árið 2013.
Það hlýtur að borga sig að vanda sig. Reynum að læra af reynslunni.


fimmtudagur, 10. júlí 2014

Um fasta búsetu og lögheimilisskráningu

Í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2014 komu upp a.m.k. tvö mál þar sem vafi lék á kjörgengi frambjóðenda. Málin snérust um hvort að lögheimilisskráning væri rétt eða röng. Mig langar að taka málið saman í einn pistil.

Um kjörgengi er sagt í lögum:
"3. gr. [Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr."
Þá skulum við skoða hvað það er í þessu sem gefur þér kosningarétt:
"2. gr. Kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu."
Þá skulum við skoða hver skilyrði laga eru til að einhver geti átt lögheimili hér eða þar. 1. gr. laga er oft þungavigtarpunktur í viðkomandi lögum:
"1. gr. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu."
Ókei. Þetta er nokkuð skýrt. En hvað þýðir þetta? Hvað telst vera "föst búseta" skv. sömu lögum?
"Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika."
Ókei. Föst búseta er þar sem þú býrð. Þar sem fjölskylda þín býr. Þar sem þú ert með allt draslið þitt og borðar jólamatinn á aðfangadag (nema að þú borðir jólamatinn hjá frænku þinni). Lögheimili er ekki þar sem þú vinnur, ekki þar sem þú geymir hestana þína, ekki í sumarbústaðnum þínum.

Þetta er ekki flókið. Lögin eru skýr.

Sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn eru bundnir af lögum og reglum í landinu, alveg eins og við hin, við þessir venjulegu borgarar. Sveitarfélög greiða t.d. út húsleigubætur á grundvelli laga þar um. Strangar reglur gilda um að sá sem sækir um bætur sé skráður þar með sitt lögheimili, að auki verður hann sannarlega að búa í því húsnæði, annars er viðkomandi að gefa rangar og villandi upplýsingar. Hann er þá að brjóta lög. Það má víst ekki.Allt kemur þetta í sama stað niður. Þú mátt ekki vera með skráð lögheimili á neinum öðrum stað nema þeim þar sem þú hefur fasta búsetu. Ef þú skráir lögheimili þitt annarsstaðar, þá ertu að gefa upp rangar upplýsingar og ert að brjóta lög.

Skráning lögheimilis getur veitt þér ýmis réttindi eða fríðindi. Þú getur fengið bætur þar, greitt lægra útsvar þar, fengið kosningarétt þar, boðið þig fram þar. Ef skráning lögheimilis myndi engu máli skipta þá væri lagaákvæðið ekki til staðar um að þar þyrfti að vera föst búseta. Það má ekki hringla með þetta eftir hentisemi í hvert sinn. Sjá Þjóðskrá.

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna er beinlínis fjallað um þetta atriði og það flokkað sem kosningaspjöll. Löggjafinn gerir ráð fyrir því að einhverjum frambjóðanda eða kjósanda gæti dottið í hug að skrá lögheimili sitt einhversstaðar til málamynda:
"92. gr. Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll telst:
  ...
   d. að gefa ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra, svo sem um nafn, aldur, búsetu í landinu, heimilisfang eða annað, sem leiðir eða leitt getur til þess að maður verði settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar, ...; hér undir heyrir sérstaklega ef maður telur sig til málamynda eiga lögheimili í sveitarfélagi, aðeins til þess að verða settur þar á kjörskrá,..."
Og:
"102. gr. Eftirtalið varðar sektum:
  ...
   h. ef maður gefur ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra á þann hátt sem greint er í d-lið 92. gr.,..."

Að segja lögheimili sitt vera á öðrum stað en þeim sem þú ert með fasta búsetu á, hljóta að teljast ónákvæmar eða villandi upplýsingar.

Sveitarstjórnarmenn þurfa að pæla í þessu: Hvernig geta þeir ætlast til að íbúar sveitarfélags fylgi lögum og reglum, ef þeir fylgja lögum og reglum ekki sjálf? Er í lagi að brjóta lög ef það kemst ekki upp? Eftir höfðinu dansa limirnir...

mánudagur, 9. júní 2014

Umbrotatímar - Upplýsingaöld - Viðreisn?

Þó ég sé ekki mjög gamall í árum talið, og get því að takmörkuðu leyti tjáð mig af reynslu, hef ég þó lesið töluvert af sögubókum og gluggað í heimildir um hin ýmsu mál. Mér finnst með miklum ólíkindum hvað mannskepnan hefur ríkan eiginleika til að gleyma. Við þekkjum öll hugtakið "gullfiskaminni". Oft er eins og farið sé í gegnum sama ferlið aftur og aftur og aftur. Engin framþróun. Ég nefni sem dæmi verðtryggingu lána og launamál á Íslandi. Reglulega ríður yfir alda verkfalla og enginn virðist skilja neitt í neinu. Svo er bara pissað smá í skóinn til að hita í nokkur ár. Svo byrjar þetta allt aftur. Í góðæri má ekki hækka laun því þá rýkur verðbólga upp og í kreppu má ekki hækka laun því þá rýkur verðbólga upp (og greiðslubyrði lána hækkar).

Þó svo að þetta sé algengt (gullfiskaminnið) þá finnst mér þó eitthvað vera að þokast og tengist það sennilega hærra menntunarstigi þjóðarinnar og ekki síst miklu upplýsingaflæði; blogg, facebook, vefmiðlar, sjónvarp, útvarp og fleira. Allt þetta verður til þess að fólk getur kynnt sér málin með nokkuð auðveldum hætti í stað þess að trúa sögusögnum og uppslegnum slagorðum hagsmunaaðila.

Á miðvikudaginn næsta verður haldinn undirbúningsfundur nýs stjórnmálaafls, Viðreisn. Þar verður saman kominn hópur fólks sem er búinn að fá upp í kok. Það vill horfa lengra fram á veginn eins og ég. Ég er búinn að skrá mig til mætingar og er nokkuð spenntur. Fullur af von um betri framtíð fyrir íslendinga.
Bloggið endurvakið

Komið þið sæl lesendur góðir. Ég er að spá í að endurvekja þessa bloggsíðu sem ég setti í frost eftir að Edda Siv dóttir mín fæddist í október 2006. Þá varð mikið að gera og svo tók Facebook við. Sjáum til hvað kemur út úr þessu.

Ýmis samfélagsmál liggja mér á hjarta og langar mig að tjá mig um ýmis atriði hvað það varðar. Ég hef mikla trú á tjáningarfrelsinu og að upplýst umræða sé til þess fallin að ýta undir framþróun.

"Sá sem lærir ekki af mistökum fortíðar er dæmdur til að endurtaka þau."

Mér finnst umræða um samfélagsmál oft fara í hringi í stað þess að fara áfram. Ég vil breyta því.


fimmtudagur, 14. september 2006

Góður pistill

Mikið er ég eitthvað sammála þessu hjá Jóni Gnarr...Þetta finnst mér ekki bara eiga við um kvenréttindaumræðuna heldur einnig þegar ýmsir aðrir hópar eru að kvarta. Það er oft tilhneiging til að kenna öðrum um ófarir sínar.