miðvikudagur, 1. september 2004

Breikdans og barsmíðar

Er á Þjóðarbókhlöðunni núna og er að velta því fyrir mér hvern andskotann ég á að gera hérna.

Vaknaði fyrir kl. sjö í morgun, skutlaði konunni í skólann og fór svo í fyrsta tímann á þessari önn kl. 8.15 en hann var frekar stuttur og núna er ég að bíða eftir almennum kynningarfundi sem byrjar kl. 14 í hátíðarsalnum í aðalbyggingu HÍ. Ég hef aldrei á ævinni komið inní aðalbyggingu Háskóla Íslands...ég hlýt að finna þennan sal.

Fyrsti tíminn hræddi mig ekki mikið, þetta var svona almennt séð eins og ég bjóst við, vissulega verður þetta strembið og allt það en það eru engar nýjar fréttir. Kennarinn sem mun kenna 80% af önninni, Róbert R. Spanó, virkaði ágætur og ég skildi það sem hann var að segja, hann talaði mannamál. Hann talaði meðal annars um að það væri ekki endilega gott að glósa á fyrirlestrum eins og tryllt hæna heldur að vera frekar búinn að lesa efnið sem á að taka fyrir í tímanum og hlusta, skilja og taka þátt í fyrirlestrinum með fyrirspurnum og slíku. Þetta er eitthvað sem ég var búinn að ímynda mér að væri réttast að gera og þarna fékk ég staðfestingu á því. Ég var ekki aldursforsetinn í nemendahópnum sýndist mér en ég er sennilega nær efri mörkunum. Ég var einn af fáum sem kom með spurningu í morgun, hún tengdist því hvenær væri frí að sjálfsögðu :).

Annars minnir mig að einhver breikari hafi heitað Róbert Spanó hér á níunda áratugnum, breikaði í Galtalæk og í Tónabæ meðal annars, spurning hvort að þetta sé hann? Hann á kannski eftir að taka nokkur spor á sviðinu í Háskólabíói í vetur, hver veit? Var líka að velta því fyrir mér að það getur í raun hver sem er labbað þarna inn í Sal 2 í Háskólabíó og hlustað á fyrirlestra á morgnanna því það eru 214 nemendur skráðir á fyrsta ár og því þarf kennarinn að vera verulega mannglöggur ef hann ætlar að "spotta" einn úr hópnum sem er ekki skráður í námskeiðið. Því hvet ég hér með áhugasama að skella sér með mér einn morguninn og hlusta á einn fyrirlestur eða svo. Annars líst mér bara vel á þetta eins og staðan er.

Það er ein kona hér inni sem hóstar leiðinlega hátt og oft. Og svo sýgur hún uppí nefið með reglulegu millibili líka. Er að hugsa um að lemja hana í hausinn með músarmottunni eða reglustiku sem einhver hefur gleymt hér. Vildi bara koma þessu að. Reglustikan er glær, 20 cm. á lengd og talsvert mikið notuð sýnist mér. Ef einhver saknar hennar þá er hún við tölvu "alm4h12" á 4. hæð Þjóðarbókhlöðunnar Arngrímsgötu 3, 107 Reykjavík, sími 525-5779.


Jæææja......hvað á maður nú að gera núna?

Engin ummæli: