föstudagur, 3. september 2004

Ekki trúa öllu sem þér er sagt

Það var mjög leiðinlegt á þessari kynningu fyrir nýnema í HÍ á miðvikudaginn. Ræðuhöld og almenn leiðindi. Ég vissi ca. 90% af því sem verið var að kynna þarna, enda búinn að vera að kynna mér málin upp á eigin spýtur undanfarið og hefði alveg eins getað sleppt því að fara. Græddi þó eina kenningu af rektorum, hún var um gagnrýna hugsun og var eitthvað á þá leið að maður ætti aldrei að trúa neinu eða að sætta sig það við fyrr en maður skilur það. Man ekki alveg hvernig þetta var orðað hjá honum en ég skildi hvað hann var að fara. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að ég trúi ekki á Guð.

Í gær voru rólegheit þannig séð. Var bara hér heima við að glugga í bækur og skipuleggja. Skutlaði svo 4Setanum og Birki útí Breiðholt til Sjallans þar sem þeir ætluðu að hefja steggjun á vini þeirra, Trausta. Skutlaði þeim svo seinna um daginn í Kringluna, þar var sprellað og steypuhrærivélin mátti hafa sig alla við til að taka við þessu bulli öllu saman. Ég hélt mig alltaf í passlegri fjarlægð frá þeim því að ég var edrú og þar af leiðandi ekki mjög aktívur í almennum fíflagangi. Þetta heppnaðist samt mjög vel hjá þeim og margt fyndið brallað. Fékk mér nokkra öl með þeim um kvöldið.

Það er landsleikur í fótaknattþeytu á morgun. Ísland og Búlgaría munu etja kappi og nú er bara að sjá úr hverju íslensku strákarnir eru gerðir. Auðvitað vona ég að þeir vinni en ég er ansi hræddur um að við hrökkvum í sama farið og áður þ.e.a.s. að sýna ekki okkar besta leik þegar á reynir.

Ég heyrði ansi góðan brandara um daginn.

Hitti Sævar í Kringlunni í dag eftir langt hlé. Við ræddum stuttlega um það sem efst var á baugi, gaman að hitta kauða og við gömlu fjallhundarnir eigum vonandi eftir að hittast oftar í vetur enda erum við orðnir skólabræður.

Ég veit ekki hvað ég á að segja meira því það er ekkert í gangi. Ekkert eitt sem er að pirra mig þessa dagana, nokkuð sáttur við dýr og menn. Vil þó benda fólki á að kaupa sér ekki jarðarberjaskyrsjeik á Boozt-barnum í Kringlunni, hann var snarvondur og fokdýr, minnsta dollan ca. 0,4 L. á 440 kr. Ég segi nei við svoleiðis "ripp-offi".

Engin ummæli: