mánudagur, 13. september 2004

Ég mæli með og ekki með

Já þetta var Ingibjörg Sólrún, Dýa sá það á nokkrum sekúndum, nösk sú arna:
Tók því rólega hér á höfuðborgarsvæðinu á föstudagskvöldið. Ég og heitkona mín máluðum fram á kvöld í Engihjalla og gerðum klárt. Borðuðum kvöldmat á Hamragrilli í Hamraborg sem var ekki frásögum færandi nema að þetta er mjög sérstök brasbúlla með "heimilismat" í bland við allskonar jukk. Ég pantaði tvo hamborgara með öllu mögulegu með og borgaði 460 kr. fyrir allt heila klabbið. Gott að versla við staði sem eru með "1"-takkann bilaðan á posanum. Mæli með þessum stað....þannig séð.

Fórum svo í kotið til 4Setans og horfðum á myndina "50 first dates" með Adam Sandler og Drew Barrymore.
Mér leist satt að segja ekkert á þessa mynd þegar ákveðið var að taka hana, en mér var svosem alveg sama eins og alltaf, en svo var hún bara mjög fyndin og góð þannig að ég mæli alveg með henni.

Á laugardeginum barst okkur liðsauki, nánar tiltekið foreldrar mínir, að austan í málverk og allskonar stúss í íbúðinni. Fínn dagur það og maður var orðinn aðeins mildaður á rúllunni í lok dags. Við sváfum í Engihjalla í fyrsta skipti og það var vindsæng sem var á milli okkar og gólfsins á meðan á svefni stóð. Vindsængin var orðinn loftlaus þegar við vöknuðum. Mæli ekki með því.

Á sunnudeginum var verið í flutningum og það er eitt það leiðinlegasta sem ég geri. Mér finnst allt í lagi að hjálpa öðrum að flytja en að vera að standa í því sjálfur finnst mér algjör viðbjóður. Ég endurtek og ítreka og undirstrika og legg áherslu á; aaalgjör viðbjóður. Halldór fékk að kveljast með mér í þessu sem bjargaði sennilega geðheilsunni minni á meðan á þessu brasi stóð. Við höfum lítið breyst frá því að við vorum lillar, síhlæjandi að skrítnu fólki og fyndnum aðstæðum, áttum bágt með okkur þegar einhver vitleysingur fékk far með okkur í lyftunni. Ingi (4Ingi??) var ómetanlegur á flutningabílnum út um allar trissur að sækja búslóð og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Svo er 4Setinn búinn að hýsa okkur á meðan maður hefur verið í þessu millibilsástandi og það líka eitthvað sem maður getur ekki þakkað nógu vel fyrir, heldur verður bara að sýna það vonandi í framtíðinni að sá greiði er ekki gleymdur heldur geymdur. Svo er Viddi Kóngur búinn að redda mér í ýmsum símamálum og það var vel þegið því að það getur verið ansi erfitt að gera sig skiljanlegan við þjónustuverin. Hvar væri maður ef maður hefði ekki fjölskyldu og vini? Mæli sterklega með fjölskyldu og vinum.

Að lokum vil ég benda á þetta lag hér(smella á "Download MP3 Now!" á miðri síðu til að sækja) sem er mér framarlega á tungu þessa dagana, rólegt og gott eins og elgur á Valíumi.


Hér er ný myndgáta og ég skal hundur heita ef einhver getur þetta, já hundur.


Engin ummæli: