mánudagur, 18. október 2004

Notið scrolltakkann...

Ja góðan daginn hér og nú góðir hálsar og aðrir líkamshlutar. Ég ætla að reyna að halda áfram þessu stopula bloggi mínu.

Maður virðist hafa eitthvað lítið að segja þegar maður er á kafi í lærdómi og því hef ég verið að koma með einhverskonar gátur og aðra vitleysu svona öðru hvoru til að halda einhverju smá flæði inn á þessa síðu. Helgi Jóns vissi svarið við fyrri gátunni og það var að sjálfsögðu Helgi Hóseason nafni hans sem skvetti tjörukenndu efni á Stjórnarráðið til að mótmæla einhverjum andskotanum. Seinni gátan innihélt einhverskonar textabrot úr dómi yfir Steingrími Njálssyni þar sem siðblinda hans var til umfjöllunar. Bjórmálaráðherra sá við mér þar og var ekki lengi að giska á rétt svar. Bjórmálaráðherra virðist vera mikill gátumeistari en er alveg snarómögulegur í Draumaleiknum okkar...

(tenging...jájá)

Talandi um Draumaleikinn, ég tel mig nokkuð vissan um að ég muni ekki hljóta jafn mikið afhroð þessa vikuna eins og síðustu tvær. Að vísu setti Chelsea-leikurinn svolítið strik í reikninginn hjá mér en ég vona bara að einhverjir aðrir hafi stigið í sama drullupoll og ég þar. Það er aðeins einn leikur eftir í umferðinni og hann er í kvöld. Nú verður spennandi að sjá hver fær flestu stigin og keppikefli mitt er að fá fleiri stig í umferðinni heldur en Forsætisráðherra Góðbjórs og Palli G. en þeir hafa verið hvað duglegastir við að hreyta í mig ónotum síðustu vikur... :) Ekki illa meint eins og Þórhallur miðill segir óþolandi oft.

(tenging...jájájá)

Og talandi um hann þá er ég orðinn mjög leiður á hans málflutningi og það er ótrúlegt hvað dautt fólk hefur frá litlu að segja. Helst snýst það um hvað lifandi menn eru góðir eða slæmir söngvarar, hvar myndir eru staðsettar á veggjum og annað svipað ómerkilegt. Það var meiri dulúð yfir Þórhalli þegar hann var í útvarpinu og maður heyrði minna og sá af honum. Komdu með eitthvað krassandi Þórhallur annars geturðu gleymt þessu hvað mig varðar.

Annars var það að gerast um helgina að ég fór í þetta blessaða próf þarna á laugardagsmorgninum kl. 9. Annað veigamesta prófið á önninni og ég var búinn að vera í viku að læra fyrir það. Mér fannst ganga vel að læra svona framan af vikunni en svo á fimmtudeginum fannst mér eins og ég væri að heimskast í þessu upp á nýtt, kominn í hring einhvernveginn. Manni finnst kannski eitthvað vera borðleggjandi til að byrja með en svo les maður bollaleggingar fræðimanna um þennan "einfalda" hlut og þá eru þeir allir á öndverðum meiði gagnvart því og maður hendist á milli skoðana eins og tryllt hæna. Já, tryllt hæna. Mér fannst prófið vera erfiðara en þau gömlu sem ég hafði tekið til að æfa mig á, kannski er það einhver ímyndun í mér og ég er gríðarlega spenntur að heyra hvað öðrum nemendum fannst um þetta próf. Ég ætla ekki að vera með neinar stórar yfirlýsingar með útkomuna úr þessu og ég skipti um skoðun á 5 mínútna fresti um það hvort að mér finnist ég hafa náð eða ekki. Það kemur víst í ljós innan 3ja vikna og ekki getur maður breytt neinu héðan af, það er eitthvað sem maður veit upp á hár.

Mamma, pabbi, María, Mikki og Gabríel voru hjá okkur í Engihjallanum á laugardagskvöldið. Við borðuðum saman og ræddum um allt á milli himins og jarðar. Það er mikið búið að ganga á í þeirra lífi síðustu misserin eins og komið hefur fram og virðist nú vera að lægja vind eitthvað, sem betur fer. María er sveitt í námi eins og ég og ég óska henni góðs gengis í prófinu sem hún er að fara í á morgun.

Svo horfði ég á Silfur Egils á sunnudeginum og þar horfði ég á Bjarna Harðarson reyna að gera lítið úr Mikka með gjörsamlega ömurlegum hætti. Bjarni reyndi að gera því skóna að Mikki ætti ekki að ala upp börn vegna þessa að hann væri ritstjóri á DV. Það er kannski hægt að segja margt misjafnt um DV en að reyna að bera saman að jöfnu föðurhlutverk hans við ritstjórahlutverkið var alveg fáránlegt og honum til mjög mikillar minnkunar. Það er jafn fáránlegt að reyna að halda því fram að fólk sem borðar tómata séu lélegir bílstjórar. Ég get vottað það að Mikki sinnir föðurhlutverki sínu af mikilli ástríðu og það var örugglega þess vegna sem hann æsti sig ekki upp í þættinum. Þeir sem vita betur þurfa ekki að svara dylgjum annarra. Ég var búinn að finna e-mailið hjá Bjarna og var með það fyrir framan mig og ætlaði að senda honum nokkur vel valin orð en svo hætti ég við, hefnd á að bera fram sem kaldan rétt á hlaðborði lífsins (speki). Og svo kemur þetta mér ekki beint við, Mikki er fullfær um að há sínar orrustur sjálfur.

Ég ætla ekki að hafa þennan pistil lengri í dag, sæl að sinni.Uppfært! (á þriðjudegi)Engin ummæli: