miðvikudagur, 27. október 2004

Hertar aðgerðir og Steingrímur

Jæja fyrsta mál á dagskrá er að ég boða hertar aðgerðir varðandi Draumaleikinn, þ.e. varðandi þá sem ekki hafa tilkynnt sig sem eigendur liða í hópnum Apollon. Sendi vefstjóranum póst með tilheyrandi yfirlýsingu, sjá hér.

Annars er allt við sama heygarðshornið; læra, sofa, borða, fara á klósettið, fara á fyrirlestra, spekúlera, geðsveiflast, þrífa sig, blikka augunum, spá, draga andann og eitthvað.

Verð aðeins að létta af mér varðandi eitt atriði. Mér finnst ótrúlegt hvað fræðingar geta flækt einfalda hluti fram og aftur, og þá er ég sennilega aðallega að tala um lögfræðinga. Ég hef oft verið í þeirri stöðu að vera ansi sáttur með einhverja lærdómslotu þar sem ég tel mig hafa komist að einhverri "solid" niðurstöðu um eitthvað ákveðið atriði, tel mig hafa skilgreint eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var áður en ég fór að lesa, svo fer ég að lesa aðeins meira. Og þá gerist það, hugtakið er tekið og krufið gjörsamlega niður í kvarka. Tökum dæmi um fordæmi í Hæstarétti; það eru nákvæmlega 153 blaðsíður í kennslubókum sem ég er búinn að vera að lesa um hvað sé fordæmi síðustu daga, ásamt öðru ítarefni. Eftir að hafa lesið þetta þvælda efni eftir sitthvorn fræðinginn er ég ekki miklu nær, farinn að halda að þetta sé fordæming...

Skynsemin segir manni þó að þetta sé eitthvað sem smellur svo einn góðan veðurdag eða slæman en það breytir því ekki að ég er með miklar efasemdir um hæfni þessarra manna sem skrifa fræðiritin til að koma frá sér efni á mannamáli um hluti sem eru tiltölulega einfaldir, þannig séð. Ætli þetta sé ekki hluti af menntasnobbi að gefa frá sér einhvern ógurlegan doðrant sem enginn skilur almennilega. Sjá dæmi hér fyrir neðan úr aðalkennslubókinni, ekki um fordæmi þó:
"Bent hefur verið á að árið 1740 hafi skozki heimspekingurinn David Hume (1711-1776) haldið því fram að ekki sé unnt að leiða það sem "ber" af því sem "er", eða með öðrum orðum að fullyrðing reist á reglu eða fyrirmælum yrði ekki leidd af staðreynd, óbrúanlegt bil væri milli verkunar reglu (norms) og staðreyndar. Það merki þó ekki að staðhæfing um það sem "ber" feli í sér vísan til sérstakrar tilveru fjarri öllum áþreifanlegum veruleika. Þótt slík staðhæfing lýsi ekki staðreynd, þá feli hún í sér fyrirmæli um hegðunarferli reist á viðmiðum sem leggja má til grundvallar við mat á því ferli."
Einmitt......eeeiiiinmitt. Góður punktur þetta Herra geimvera.

Annars held ég að lögfræðingar séu ekki einir um þetta, sá í Fréttablaðinu í dag að kynlífsfræðingur var að tala um "kynverund". Einmitt já, kynverund...hafðu það eins og þú vilt væna.

Það á ekki að skilja mig þannig að ég sé eitthvað að tapa mér yfir þessu öllu saman en ég varð bara að létta þessu af mér.


Þegar ég er ekki viss um eitthvað, sem er ansi oft, þá spyr ég bara Steingrím hvert svarið sé. Hann er sköpunarverk mitt og við erum ágætis vinir. Hann vakir yfir mér hér við skrifborðið þar sem ég dvel jafnan. Það er eitthvað við hann Steingrím sem ég kem ekki fingri á, ætli það sé ekki bara það að hann er bæði í senn sorgmæddur og glaður, svona rétt eins og ég...SteingrímurEngin ummæli: