fimmtudagur, 10. júlí 2014

Um fasta búsetu og lögheimilisskráningu

Í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2014 komu upp a.m.k. tvö mál þar sem vafi lék á kjörgengi frambjóðenda. Málin snérust um hvort að lögheimilisskráning væri rétt eða röng. Mig langar að taka málið saman í einn pistil.

Um kjörgengi er sagt í lögum:
"3. gr. [Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr."
Þá skulum við skoða hvað það er í þessu sem gefur þér kosningarétt:
"2. gr. Kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu."
Þá skulum við skoða hver skilyrði laga eru til að einhver geti átt lögheimili hér eða þar. 1. gr. laga er oft þungavigtarpunktur í viðkomandi lögum:
"1. gr. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu."
Ókei. Þetta er nokkuð skýrt. En hvað þýðir þetta? Hvað telst vera "föst búseta" skv. sömu lögum?
"Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika."
Ókei. Föst búseta er þar sem þú býrð. Þar sem fjölskylda þín býr. Þar sem þú ert með allt draslið þitt og borðar jólamatinn á aðfangadag (nema að þú borðir jólamatinn hjá frænku þinni). Lögheimili er ekki þar sem þú vinnur, ekki þar sem þú geymir hestana þína, ekki í sumarbústaðnum þínum.

Þetta er ekki flókið. Lögin eru skýr.

Sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn eru bundnir af lögum og reglum í landinu, alveg eins og við hin, við þessir venjulegu borgarar. Sveitarfélög greiða t.d. út húsleigubætur á grundvelli laga þar um. Strangar reglur gilda um að sá sem sækir um bætur sé skráður þar með sitt lögheimili, að auki verður hann sannarlega að búa í því húsnæði, annars er viðkomandi að gefa rangar og villandi upplýsingar. Hann er þá að brjóta lög. Það má víst ekki.Allt kemur þetta í sama stað niður. Þú mátt ekki vera með skráð lögheimili á neinum öðrum stað nema þeim þar sem þú hefur fasta búsetu. Ef þú skráir lögheimili þitt annarsstaðar, þá ertu að gefa upp rangar upplýsingar og ert að brjóta lög.

Skráning lögheimilis getur veitt þér ýmis réttindi eða fríðindi. Þú getur fengið bætur þar, greitt lægra útsvar þar, fengið kosningarétt þar, boðið þig fram þar. Ef skráning lögheimilis myndi engu máli skipta þá væri lagaákvæðið ekki til staðar um að þar þyrfti að vera föst búseta. Það má ekki hringla með þetta eftir hentisemi í hvert sinn. Sjá Þjóðskrá.

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna er beinlínis fjallað um þetta atriði og það flokkað sem kosningaspjöll. Löggjafinn gerir ráð fyrir því að einhverjum frambjóðanda eða kjósanda gæti dottið í hug að skrá lögheimili sitt einhversstaðar til málamynda:
"92. gr. Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll telst:
  ...
   d. að gefa ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra, svo sem um nafn, aldur, búsetu í landinu, heimilisfang eða annað, sem leiðir eða leitt getur til þess að maður verði settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar, ...; hér undir heyrir sérstaklega ef maður telur sig til málamynda eiga lögheimili í sveitarfélagi, aðeins til þess að verða settur þar á kjörskrá,..."
Og:
"102. gr. Eftirtalið varðar sektum:
  ...
   h. ef maður gefur ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra á þann hátt sem greint er í d-lið 92. gr.,..."

Að segja lögheimili sitt vera á öðrum stað en þeim sem þú ert með fasta búsetu á, hljóta að teljast ónákvæmar eða villandi upplýsingar.

Sveitarstjórnarmenn þurfa að pæla í þessu: Hvernig geta þeir ætlast til að íbúar sveitarfélags fylgi lögum og reglum, ef þeir fylgja lögum og reglum ekki sjálf? Er í lagi að brjóta lög ef það kemst ekki upp? Eftir höfðinu dansa limirnir...

Engin ummæli: