mánudagur, 9. júní 2014

Umbrotatímar - Upplýsingaöld - Viðreisn?

Þó ég sé ekki mjög gamall í árum talið, og get því að takmörkuðu leyti tjáð mig af reynslu, hef ég þó lesið töluvert af sögubókum og gluggað í heimildir um hin ýmsu mál. Mér finnst með miklum ólíkindum hvað mannskepnan hefur ríkan eiginleika til að gleyma. Við þekkjum öll hugtakið "gullfiskaminni". Oft er eins og farið sé í gegnum sama ferlið aftur og aftur og aftur. Engin framþróun. Ég nefni sem dæmi verðtryggingu lána og launamál á Íslandi. Reglulega ríður yfir alda verkfalla og enginn virðist skilja neitt í neinu. Svo er bara pissað smá í skóinn til að hita í nokkur ár. Svo byrjar þetta allt aftur. Í góðæri má ekki hækka laun því þá rýkur verðbólga upp og í kreppu má ekki hækka laun því þá rýkur verðbólga upp (og greiðslubyrði lána hækkar).

Þó svo að þetta sé algengt (gullfiskaminnið) þá finnst mér þó eitthvað vera að þokast og tengist það sennilega hærra menntunarstigi þjóðarinnar og ekki síst miklu upplýsingaflæði; blogg, facebook, vefmiðlar, sjónvarp, útvarp og fleira. Allt þetta verður til þess að fólk getur kynnt sér málin með nokkuð auðveldum hætti í stað þess að trúa sögusögnum og uppslegnum slagorðum hagsmunaaðila.

Á miðvikudaginn næsta verður haldinn undirbúningsfundur nýs stjórnmálaafls, Viðreisn. Þar verður saman kominn hópur fólks sem er búinn að fá upp í kok. Það vill horfa lengra fram á veginn eins og ég. Ég er búinn að skrá mig til mætingar og er nokkuð spenntur. Fullur af von um betri framtíð fyrir íslendinga.
Engin ummæli: