þriðjudagur, 22. mars 2005

Kílówattastundir djöfulsins

Í tilefni viðbjóðslegs rafmagnsreiknings sem kom til mín í dag fór ég á stúfana og fann þetta hér að neðan, langaði að deila því með yður ef ég mætti. Einnig fann ég þetta fyrir þá sem vilja sleppa við seðilgjöldin ef greitt er á heimabanka.

Hver er annars meðalnotkun/áætlun lesenda hér á mánuði? Mín(áætlun) var að hoppa uppí 272 KWh fyrir mars, ætli það sé mikið eða lítið? Áætlun í janúar var 186 KWh þannig að þetta er mikil aukning. Ég var að borga rúmlega 2.000 kall í rafmagn á mánuði en um næstu mánaðamót þarf ég að borga 5.800 kall vegna uppgjörs.

Þeir geta í raun rukkað mann um hvað sem er því hvernig á maður að sannreyna notkunina? Ég vissi nú að maður væri orkulaus yfir skammdegismánuðina en það virðist vera að maður sé farinn að soga rafmagnið úr innstungunum hérna til að halda sér gangandi.

Ekki skemmtilegasti bloggpistillinn hingað til en hvað um það.


Hvernig spara ég rafmagn?

Slökkvið á eftir ykkur

Munið að slökkva á eftir ykkur. Oft loga ljós að óþörfu þar sem engin hefst við. Slíkt getur einnig skapað eldhættu.

Þvottavélin

Fyllið vélina af þvotti. Það kostar álíka mikið að þvo lítinn og mikinn þvott. Hafið ekki of hátt hitastig. Vélin notar 30% minni orku, ef hitinn er lækkaður um þriðjung. Sleppið forþvotti, ef þvotturinn er lítið óhreinn. Það sparar 20% orku. Skolun með köldu vatni fyrir þvott getur sparað orku. Hvort sem um er að ræða þvottavél fyrir klæðnað eða leirtau, er hægt að sleppa forþvotti fyrir vikið.

Þurrkarinn
Vindið þvottinn sem best áður en hann er settur í þurrkarann Hreinsið lósíuna eftir hverja notkun. Setjið hæfilegt magn af þvotti í þurrkarann, hvorki of mikið né of lítið. Hvort tveggja veldur meiri orkunotkun en ef þurrkað er hæfilegt magn í einu. Notið sparnaðarstillingu þegar henni verður við komið.

Örbylgjuofninn
Tími og orka sparast þegar matreitt er í örbylgjuofni. Það tekur 7 mínútur (0,14 kWh) að matreiða 250g af kartöflum í örbylgjuofni, en 25 mínútur (0,22 kWh) á eldavél. Notið eldunaráhöld sem henta örbylgjuofninum. Sjóðið eða hitið matinn í lokuðum ílátum, þannig helst hitinn betur á matnum og orka sparast. Með því að nota lítið vatn þarf styttri suðutíma. Oft er hægt að sleppa vatninu alveg þegar matreitt er í örbylgjuofni.

Eldavélin
Gætið þess að potturinn sé hæfilega stór á helluna. T.d. fer 20% orkunnar til spillis ef potturinn er 2 cm minni í þvermál en hellan. Ósléttur botn á potti eða pönnu getur valdið 40% meiri rafmagnsnotkun. Notið þétt lok á pottinn og takið það ekki af meðan soðið er. Ef lokið er ekki á pottinum þarf tvöfalt meiri orku en ella. Það þarf tvisvar til þrisvar sinnum meiri orku að glóðarsteikja í ofninum en að steikja á hefðbundinn hátt.

Ísskápurinn
Hæfilegt hitastig í kæliskápnum er 4-5°C. Rafmagnsnotkun eykst um 4% fyrir hvert stig sem hitinn er lækkaður. Gætið þess að loftræsting sé nægjanleg bak við kæliskápinn. Léleg loftræsting getur valdið 5-10% meiri rafmagnsnotkun. Kæliskápa sem ekki eru með sjálfvirka afhrímingu þarf að þíða reglulega.

Gleymd notkun
Mörg heimilistæki nota rafmagn jafnvel þó að þau séu ekki í gangi. Þetta eru tæki sem búin eru fjarstýringu og eru tilbúin til að hlýða skipun frá henni t.d. sjónvörp, hljómtæki, myndbandstæki o.fl. Öll þessi tæki auka orkunotkunina. Þó svo að þau taki lítið afl er oftast kveikt á þeim allan sólarhringinn allan ársins hring.

Sjónvörp
Í sjónvarpi getur aflið, sem tækið notar þó slökkt sé á því með fjarstýringu, verið frá 3 til 18 Wött sem þýðir að orkunotkun þessa tækis verður milli 25 og 160 kWh á ári ef tækið er í sambandi allt árið. Þessa eyðslu má spara með því að slökkva alveg á sjónvarpinu auk þess sem það minnkar hættu á íkveikju.

Myndbandstæki
Myndbandstæki sem stjórnað er með fjarstýringu notar um 100 kWh á ári. Það að slökkva alveg á myndbandstækinu hefur bæði kosti og galla. Ef slökkt er alveg á tækinu sparast þessar 100 kWh en á móti þarf oft að endurstilla klukku og dagsetningu þegar kveikt er næst.

Önnur tæki
Spennar fyrir amerísk 110 volta heimilistæki nota orku þó svo að þau séu ekki í gangi. Þá er rétt að átta sig á því að ýmis tæki gætu verið tengd án þess að við munum eftir því t.d. loftnetsmagnarar, rafmagnsklukkur og klukkur í ýmsum tækjum eins og t.d. í örbylgjuofnum, eldavélum og útvarpsklukkum.

Engin ummæli: