laugardagur, 14. janúar 2006

Mál málanna

Ég bara verð að rita nokkur orð um það sem allir eru að tala um þessa vikuna, DV/Barnaníðingsmálið. Það vildi nú svo til að ég var staddur úti á landi megnið af vikunni, í plássi þar sem fjölmiðlar eru ekki framarlega í forgangsröðinni. Þessvegna gat ég eiginlega ekki sett mig inn í málið fyrr en á fimmtudagskvöld. Ég er búinn að skipta nokkrum sinnum um skoðun í málinu en þetta er niðurstaðan.

DV hefur frá upphafi stungið á kýlum og meðal annars fjallað um hluti sem einungis var fjallað um á kaffistofum landsmanna hér áður fyrr. Eini munurinn er að þeir vinda sér beint að efninu og segja hvernig staðan er, Jón Jónsson kennari er grunaður en ekki bara einhver kennari. Framsetningin kann oft að vera umdeilanleg en innihaldið er það sama. Hver kannast ekki við jólapakkana, það skiptir engu máli hvernig þú pakkar þeim inn, innihaldið breytist ekki. Sumir spyrja sig hvaða máli það skipti hvort einhver sé einhentur þegar hann fjallað er um hann. Það skiptir í sjálfu sér engu máli nema að því leyti að þannig staðan, maðurinn er einhentur. Það einkennir manninn. Hvernig hefði frétt um mál Michael Jacksons á síðasta ári átt að hljóma? Michael Jackson sakaður um kynferðisáreiti á börnum? Söngvari sakaður um kynferðisáreiti? Karlmaður sakaður um áreiti? Manneskja sökuð um að hafa brotið lög?

Fólk talar um að það eigi að fjalla öðruvísi um þann sem kærður hefur verið um glæp á Íslandi en þann sem hefur kærður glæp í útlöndum. Þvílík og önnur eins þvæla! Erum við ekki öll á sömu plánetunni hérna? Fyrir ekki alls löngu síðan birtist á síðum DV frétt um að þeldökkur rappari hér á landi væri kærður af tveimur stúlkum fyrir nauðgun, DV fjallaði um málið og reyndi að komast til botns í því. Þegar á leið komu þrjár aðrar stúlkur fram og kærðu hann einnig um nauðgun. Þetta er í raun nákvæmlega eins mál nema að því leyti að að rapparinn var ekki einhentur, ekki hvítur, ekki kennari og síðast en ekki síst þá drap hann sig ekki. Hvar voru lætin þá? Hvaða stjórnmálamenn skrifuðu á síður sínar þá? Hvar voru undirskriftalistarnir?

Öll mál fara gjörsamlega í pattstöðu þegar menn fremja sjálfsmorð. Það er í raun ekki hægt að rökræða almennilega um mál sem snerta þann látna án þess að sverta að einhverju leyti minningu hans. Fréttamaður á RÚV spurði ritstjóra DV tveimur dögum eftir að maður framdi sjálfsmorð afhverju þeir hafi ekki birt frétt á forsíðu um það að hann hefði tekið eigið líf. Að þessu var spurt í ásökunartón og eins og þeir væru að reyna að fela eitthvað með því. Ég er sannfærður um að þeir hefðu fengið enn fleiri ákúrur ef þeir hefðu gert það sem fréttamaður RÚV sakaði þá um að gera ekki. Semsagt ef þeir hefðu birt frétt á forsíðu um það að hann hefði framið sjálfsmorð þá hefði það kallast vanvirðing. Þetta kallast á ensku: "No win situation." Þegar einhver fremur sjálfsmorð þá eru málin einfaldlega komin í pattstöðu.

Menn hafa haft uppi stór orð um að DV hafi hreinlega hrakið manninn út í sjálfsmorð og að það hafi verið bein afleiðing af umfjöllun DV. Að DV hafi drepið manninn. Ekki veit ég það upp á hár en þeir sem telja sig vita mikið um málið segja að hann hafi drepið sig áður en hann hafi getað séð hvað í því stóð sbr. dánartíma. Að saka DV um að eiga hlutdeild að dauða mannsins er eins og að saka lögregluna um morð hér:
| 24.04.01 | 15:54
Svipti sig lífi

Lögreglan í Reykjavík hefur að undanförnu unnið að rannsókn á nýju fíkniefnamál. Var gerð húsleit vegna málsins í gærkvöldi á heimili grunaðs manns í Reykjavík samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Í tilkynningu frá lögreglunni í Reykjavík segir að hinn grunaði hafi verið viðstaddur leitina og meðan á henni stóð hafi sá hörmulegi atburður gerst að hann svipti sig lífi með skotvopni. Lögreglan segir að rannsókn á tildrögum þess að svona fór standi yfir svo og rannsókn á hinu ætlaða fíkniefnabroti. Í tilkynningunni, sem Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn skrifar undir, segir að lögregla geti á þessu stigi ekki veitt frekari upplýsingar um málið.

Frá þessu er greint á Mbl.is.Við munum aldrei vita upp á hár afhverju hann framdi sjálfsmorð en í mínum huga er það skýrt. Maðurinn sá fyrir sér að það sem honum hafði tekist að komast upp með í fjölda ára var að komast upp á yfirborðið. Þökk sé DV. Þó svo að ritstjórum DV hafi verið fórnað á nornabrennunni í þessari miklu histeríu þá geta þeir verið með góða samvisku gagnvart þeim framtíðarfórnarlömbum sem biðu örlaga sinna.

Í öllu falli er hægt að segja að umfjöllun DV um það sem er að gerast hér á þessu landi sé gróf. En hún verður aldrei grófari en það sem er að gerast þarna úti.

Engin ummæli: