þriðjudagur, 3. ágúst 2004

Enginn spegill er betri en gamall vinur

Þá er þessi helgi afstaðin og fannst mér hún bara nokkuð sporöskjulaga svona almennt séð en það er einmitt mjög gott. Fór austur á Hellu þarna á föstudeginum eins og efni stóðu til, sat einn í Bogatúni framan af og dundaði mér í tölvuleikfimi með bjór í hönd þangað til að FatDogMendoza kom til mín þar sem við þurftum að æsa hvorn annan upp fyrir ferðalag morgundagsins. Það virðist hafa tekist ágætlega því að við hittumst á Skeiðaafleggjara í kringum fimmleytið á laugardeginum án nokkurra teljandi veikinda vegna bjórdrykkju kvöldið áður. Á Skeiðaafleggjara sameinuðumst við FTM í einn bíl og stelpurnar í annan því að þær ætluðu í verslunarferð á Selfoss að kaupa í matinn og slíkt á meðan við strákarnir áttum að fara í Þjórsárdal á undan að tjalda og gera klárt. Þegar við komum á áfangastað tóku ca. 15 - 20 vinir og vandamenn á móti okkur.

Við dunduðum okkur við að grilla fram eftir kvöldi, spila Partíspilið og tæma úr allskonar áfengisílátum. Ég ætla ekki að gera FatDogMendoza það að lýsa Partíspilsferlinu, hann er með sár á sálinni eftir þetta en það er skemmst frá því að segja að við Dýa tókum þau skötuhjúin í karphúsið. Einnig var sungið, hlegið, kjaftað og kveikt í spýtum fram undir morgun. Talaði við Gunnar frænda sem er í víking á meginlandi Evrópu, alltaf gaman að heyra í honum þó að það sé náttúrulega alltof sjaldan. Þetta var mjög gaman allt saman og kannski fullgaman því að ég var hálflélegur daginn eftir þegar ég loksins vaknaði um þrjúleytið, já þrjúleytið sagði ég! Við Dýa vorum ekki komin upp í bælið fyrr en um kl. 6.30 og ég svaf bara þrælvel á uppblásinni vindsæng sem við vorum með undir okkur um helgina.

Fórum í þynnkunni minni á Flúðir í sturtu og verslunarferð, ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni til að anda að mér fersku lofti. Ég skemmti mér ekki vel í sturtu þarna í sundlauginni á Flúðum, fannst þetta vera allt hálfviðbjóðslegt og sveitt þarna í klefanum, ætla ekki að fara út í grafískar lýsingar á því. En það hafðist án þess að kúgast og við héldum "heim" á leið eftir stuttan skoðunartúr á Flúðum.

Svo hófst "Annar í Þjórsárdal" með tilheyrandi grilli og bjórdrykkju. Í hópinn bættust Rúnar, Magga og börn og Sigurgeir og Svava. Magga spilaði á gítar og Sigurgeir á munnhörpu og söngblöðin fengu að finna til tevatnsins. Ekki síður gaman það kvöldið og löngu tímabært að hitta Rúnar í góðu tómi en ekki alltaf á hlaupum eins og svo oft vill vera.

Semsagt bullandi fín helgi og veðrið kom manni gjörsamlega í opna skjöldu því að rigningin lét ekkert á sér kræla sem þarf varla að taka fram að er mjög jákvætt.

Ég læt þennan pistil duga um ferð þessa en minni enn og aftur á að þeir segja mest frá Ólafi konungi sem hvorki hafa heyrt hann né séð.

Engin ummæli: